140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

rammaáætlun.

[15:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þeir virkjanakostir sem helst hafa verið bitbein í pólitískri umræðu hafa verið fullkannaðir, sérstaklega þeir sem snúa að neðri hluta Þjórsár. Það er búið að eyða mörgum árum og gríðarlegum fjármunum í að skoða þá frá öllum hliðum. Nú er komið að því að þingið fái málið til frekari meðferðar og það er þess fullbúið að kanna sjónarmið og athugasemdir í þjóðfélaginu og fjalla um þær. Það þarf ekki að ganga frá því á milli tveggja ráðherra í einhverjum reykfylltum bakherbergjum. Það er einfaldlega komið að því að þingið fái málið til meðhöndlunar og að menn noti ekki pólitík og síðan einhverja feluliti sem menn virðast vera farnir að grípa mjög til í þessari umræðu, eins og að búa allt í svo fræðilegan og faglegan búning að þetta og hitt megi ekki. Það er bara komið að því að leggja þingsályktunartillöguna fram.

Við erum hérna með hvern kostinn á fætur öðrum sem samkvæmt okkar færasta fólki eru nýtingarkostir. (Forseti hringir.) Það er pólitísk stefnumörkun annars stjórnarflokksins sem greinilega kemur í veg fyrir að þeir rati inn í þingsályktunartillögu.