140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samstarf við Kanada um gjaldmiðilsmál.

[15:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er merkilegt að fylgjast með þróun hv. þingmanns í hugsun. Við sjáum hérna algjört flipp-flopp á því sem honum finnst í gjaldmiðilsmálunum. Hv. þingmaður var talsmaður þess fyrir um það bil tveimur árum ásamt núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins að menn skoðuðu mjög rækilega einhliða upptöku evrunnar. Í hans flokki er líka að finna menn sem vilja skoða einhliða upptöku kanadadollars og nú er komin þriðja skoðunin, sú að kanna tvíhliða upptöku kanadadollars. (Gripið fram í.) Ég er þeirrar skoðunar að það sé í fínu lagi að skoða alla þessa hluti, þessi umræða er með blússandi byr núna og ég hef fagnað henni. Ég tel hins vegar að áður en menn tækju slíka ákvörðun hlytu þeir að þurfa að leggja niður fyrir sér hvort þetta væri vænlegur kostur. Ég tel að rökin falli ekki með þeirri niðurstöðu og ástæðan er sú að sameiginleg utanríkisviðskipti okkar og Kanada eru svo lítil. Þau eru 1% af utanríkisverslun Íslendinga. (Gripið fram í: Það er tækifæri, að auka viðskiptin.)