140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum.

[15:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Að þessu sinni er nokkuð auðvelt að svara fyrri lið spurningarinnar því að frumvarpi um fjölmiðla var einmitt útbýtt hér í dag og liggur í hliðarherbergi. Það byggir að meginefni til á tillögum þeirrar þverpólitísku nefndar sem var skipuð og átti að fara yfir reglur um eignarhald. Meginniðurstaða hennar er sú að leggja ekki til statískar hlutfallsreglur heldur að fela fjölmiðlanefnd og Samkeppniseftirliti ákveðnar heimildir til að meta samruna á fjölmiðlamarkaði þar sem fjölmiðlanefnd kemur að sem fagaðili en Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar hlutverk sem sá aðili sem fer með almenna samþjöppun.

Hins vegar er það niðurstaða nefndarinnar að um fjölmiðla gildi að mörgu leyti aðrar reglur en um önnur fyrirtæki á markaði. Þeir eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki ef við ætlum að virða það að fjölmiðlar séu fjórða valdið í lýðræðisríki. Þarna eru settar upp ákveðnar heimildir, vissulega matskenndar, sem við hv. þingmenn eigum eftir að taka til umræðu í þinginu. Nefndin kemst að samhljóma niðurstöðu um að besta leiðin sé að hafa innbyggt í lög ákveðið ferli ef talin er ástæða til að ætla að of mikil samþjöppun hafi átt sér stað á fjölmiðlamarkaði þannig að þessir aðilar fái þar með ákveðið hlutverk til að bregðast við því.

Hvað líður frumvarpi um Ríkisútvarpið verður því vonandi útbýtt í mars, ég ætla ekki að segja í næstu viku, þau gullnu orð sem ég segi alloft og svo líður lengri tími, en það ætti þó að hafast í þessum mánuði. Það ætti að ná inn í tæka tíð.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um eignarhlut minn og annarra ráðherra í netmiðlinum Smugunni sem hún nefnir vil ég í fyrsta lagi segja að mér fannst mjög gott að sjá þessi lög verða að veruleika og sjá loksins eignarhald fjölmiðla birt. Hins vegar hafa upplýsingar um eignarhlut minn og annarra í Smugunni löngum verið aðgengilegar í þeim lista sem finna má á heimasíðu Alþingis um hagsmunatengsl þingmanna. (Forseti hringir.) Mér finnst hins vegar góð og gild spurning hvort við eigum að setja okkur einhverjar reglur um eignarhlut þingmanna og ráðherra í fjölmiðlum.