140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samskipti lækna og framleiðenda lyfja og lækningatækja.

433. mál
[16:35]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur beint til mín fyrirspurn um hvernig háttað sé eftirliti með samskiptum lækna og framleiðenda lyfja og lækningatækja.

Samskipti lækna og framleiðenda lyfja og lækningatækja eru í ýmsu formi, svo sem með auglýsingakynningum á vinnustöðum lækna og með fundum og ráðstefnum bæði hérlendis og erlendis. Um lyfjaauglýsingar gilda ákvæði VI. kafla lyfjalaga. Því til viðbótar er í gildi reglugerð nr. 328 frá 1995 um lyfjaauglýsingar en til lyfjaauglýsinga teljast hvers konar lyfjakynningar framleiðenda fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem og afhendingar lyfjasýnishorna svo dæmi séu tekin. Það er Lyfjastofnun sem lögum samkvæmt hefur eftirlit með lyfjaauglýsingum og er stofnuninni heimilt að banna auglýsingar sem fara á svig við gildandi reglur eða gildandi regluverk. Um samskipti framleiðenda lækningatækja gilda ekki hliðstæðar reglur en til þessa hefur ekki þótt þörf á slíku.

Samtök lækna víða um heim hafa sett sér ákveðnar siðareglur um slík samskipti enda hafa þau víða verið í sviðsljósinu. Hefur það leitt til þess að umgengnisreglur þeirra hafa verið hertar. Þetta hefur að hluta til átt sér stað á vegum samtaka lækna en einnig hafa vinnuveitendur lækna svo sem sjúkrahús og heilsugæslustöðvar sett mjög skýrar reglur um hvernig þessum samskiptum skuli háttað. Er þar kveðið á um flest þau atriði sem samskiptin varða.

Á árunum 2003–2004 stóð heilbrigðisráðuneytið fyrir átaki í lyfjamálum heilbrigðisstofnana sem meðal annars fólst í tilmælum ráðherra til forstjóra stofnana um að kynna og framfylgja leiðbeinandi reglum um umgengni varðandi lyfjakynningar og einnig við lyfjakynna, þ.e. þá sem kynna og selja lyf og hvernig umgangast ætti slíka á stofnunum, en stýrihópur á vegum ráðuneytisins hafði samið slíkar reglur. Í framhaldi af tilmælum ráðherra á þessum tíma settu flestar heilbrigðisstofnanir sér sérstakar reglur um lyfjakynningar sem fram fara þar innan dyra sem og sérstakar reglur um kynningar á tækjum, rekstrarvörum og þjónustu.

Ráðuneytið kannaði stöðuna nokkrum árum síðar og kom í ljós að víðast hvar voru þessar reglur í notkun og birtar á heimasíðum viðkomandi stofnana. Samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi eru aðili að evrópskum samtökum frumlyfjaframleiðenda og á þeim vettvangi hafa verið settar reglur um samskipti við heilbrigðisstarfsmenn. Eru þær reglur meðal annars til komnar til að endurspegla ákvæði Evrópulöggjafarinnar. Aftur á móti eru samskipti lækna á einkastofum við framleiðendur lyfja og lækningatækja án opinberrar íhlutunar og engin formleg tilkynningarskylda hvílir á þeim sem eiga í þessum samskiptum, þ.e. um lyfjanotkun eða lækningatæki.

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þingmanns vekur athygli á gríðarlega mikilvægum þætti sem að hluta til hefur snert umræðu undanfarinna daga um einkarekstur læknastofa í framhaldi af PIP-brjóstapúðamálinu. Þegar hefur verið settur í gang ráðgjafahópur til að athuga starfsemi slíkra stofa. Hann mun meðal annars skoða eftirlitsskyldu heilbrigðisyfirvalda með heilbrigðisþjónustu í landinu og mun því það efni sem hv. þingmaður spyr um einnig verða þar til umfjöllunar. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili í maímánuði og í framhaldi af því mun verða farið ítarlegar yfir regluverkið og reynt að setja leiðbeinandi reglur. Hv. þingmaður nefndi hér athyglisverðar hugmyndir frá Bandaríkjunum og sjálfsagt að slíkar hugmyndir komi inn í vinnu hópsins.

Varðandi það hvort þetta eigi erindi í lög um heilbrigðisstarfsmenn veit ég að það hefur verið skoðað lítillega. Það er kannski ekki rétt að setja þetta endilega í þau lög enda mundi þetta snerta Lyfjastofnun og lyfjalögin almennt og jafnvel reglugerðir um tæki.

Ég hef haft þá skoðun alveg frá því að þetta mál kom upp að augljóst sé að við þurfum að fara í miklu hertari reglur hvað þetta varðar, þ.e. miklu skýrari reglur á milli einkastofa og opinbera kerfisins, einkum þegar í ljós kom að sérgreinalæknar og þeir sem vinna á einkastofum hafa vísað því til Persónuverndar hvaða upplýsingar þeir þurfi að gefa til landlæknis. Það er útilokað að landlæknir sem sá aðili sem á að hafa eftirlit með starfseminni og fylgjast með að skráningar séu með eðlilegum hætti þurfi að sæta því að geta ekki fengið slíkar upplýsinga. Ég vona því að öll þessi umræða verði til þess að regluverkið verði bætt (Forseti hringir.) með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.