140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

íþróttaferðamennska.

287. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki á því að starfandi hæstv. iðnaðarráðherra sæti í salnum en það er svona þegar skipt er ört um á þeim vettvangi. (Gripið fram í.) Ég er hér með allsérstæða fyrirspurn, ég átta mig á því, en hún lýtur að íþróttatengdri ferðaþjónustu.

Í grein og viðtali sem birtist við Ernu Hauksdóttir, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustu, tók hún sérstaklega fram að aðaltækifæri landsins væru í vetrarferðamennsku. Ég átta mig á að þetta snýr kannski ekki beint að íþróttaferðamennsku en einn stærsti þátturinn sem hún benti á var einmitt sá að geta boðið upp á íþróttatengda ferðaþjónustu eins og skíðaíþróttina og annað, fara með fólk upp á fjöll í þyrlu og selja slíkar ferðir.

Við vitum nú þegar hvað ferðamennska tengd norðurljósunum hefur gefið af sér og það eru í rauninni óþrjótandi möguleikar á þessu sviði. Færeyingar komu til Akureyrar í að minnsta kosti tveimur flugvélum og nýttu sér hið glæsilega skíðasvæði sem þar er. Fullyrða má að íþróttatengd ferðamennska sé sú grein innan ferðaþjónustunnar sem hefur vaxið hvað hraðast á undanförnum árum og þá ekki síst hvað golfið snertir, en fjölmargir ferðamenn vilja koma til Íslands og upplifa það einstaka tækifæri að fá að spila hér golf, miðnæturgolf sem ég nefni sem dæmi. Þau fyrirtæki sem hafa verið að markaðssetja sig, eins og Icelandair Golfers og ÍT ferðir, hafa stóraukist og það eru óþrjótandi möguleikar.

Ríkið setti um 3 milljónir í þessa ferðamennsku árið 2009 en svo hefur ekkert gerst. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um hvort ríkið eigi ekki að vinna harðar að þessum málum. Við þurfum að fá hingað ferðamenn, við þurfum að vita í hvað þeir sækja og þar er íþróttatengd ferðaþjónusta í hvað hröðustum vexti.