140. löggjafarþing — 67. fundur,  12. mars 2012.

tollalög o.fl.

584. mál
[17:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frumvarpi þessu er ætlað að framlengja þá aðgerð stjórnvalda sem áður hefur verið gripið til vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækja í kjölfar bankahrunsins. Lagt er til að hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda verði dreift á tvo gjalddaga á árinu 2012 eins og gilti fyrir árið 2011. Jafnframt er lagt til að fyrirkomulagið skerði ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þó að einungis hluti hans hafi verið greiddur.

Greiðsluaðlögun af sams konar meiði hefur verið lögfest nokkrum sinnum áður og síðast með lögum nr. 46/2011. Í þessu frumvarpi er gerð sú breyting frá fyrri framkvæmd að lagt er til að síðari helmingi aðflutningsgjalda skuli skila eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabilsins í stað 15. dags.

Verði frumvarp þetta að lögum hefur það engin áhrif á tekjur ríkissjóðs á árinu 2012 enda einungis um að ræða tilfærslu á innheimtu innan ársins. Jafnvel má gera ráð fyrir að skil gætu orðið betri vegna þessa úrræðis.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.