140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt að sú sem hér stendur og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafa líklega bæði lagt þetta frumvarp fram eða gengið frá því til framlagningar. En það hefur breyst nokkuð í áranna rás, fyrst og fremst vegna víðtæks samstarfs sem hefur verið haft við heilbrigðisstéttir.

Það er rétt að 1. minni hluti gerir tillögu um að tekið verði út sérákvæði um lækna í 13. gr. frumvarpsins. Með því er ekki lagt til að einhver annar en læknir beri ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð, vegna þess að það er þarna inni eins og það þá stæði, eftir að þetta verður fellt niður, ákvæði um að sérhver heilbrigðisstétt beri ábyrgð á sínu starfssviði, á sínu ábyrgðarsviði, á greiningu og meðferð.

Eins og ég rakti áðan hefur verið skoðað sérstaklega hvort sérákvæði um ábyrgð lækna á læknisfræðilegri meðferð og greiningu sé að finna í heildarlögum um heilbrigðisstarfsmenn og í lögum um heilbrigðisþjónustu annars staðar á Norðurlöndum. Svo er ekki. Í norskum lögum eru engin sérákvæði um ábyrgð lækna. Í dönskum lögum, sem fjalla um ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna, er talað um þann heilbrigðisstarfsmann sem ber ábyrgð á meðferðinni, en ekki sérstaklega um ábyrgð lækna. Því tekur það ákvæði til allra heilbrigðisstarfsmanna, þar á meðal lækna. Í sænskum lögum um störf heilbrigðisstarfsmanna er að finna samsvarandi ákvæði, þ.e. að heilbrigðisstarfsmaður beri sjálfur ábyrgð á því sem honum eða henni er falið í krafti þeirra starfa.

Þannig að þetta snýst (Forseti hringir.) í reynd um hvort læknar verði tilgreindir sérstaklega í þessu ákvæði umfram aðrar (Forseti hringir.) heilbrigðisstéttir, sem eru 33.