140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er ljóst að hv. þm. Jón Bjarnason hefur hvergi hvikað frá þeirri skoðun sem við vitum að hann hefur ásamt nokkuð mörgum þingmönnum í þinginu um umsókn okkar að Evrópusambandinu.

Það eru hins vegar nokkrir þættir sem maður fer að velta vöngum yfir á þessum tímapunkti, ef ég má orða það þannig, þegar hv. þingmaður lýsir því yfir, hafi ég tekið rétt eftir, að það sé ástæða til að framkvæmdarvaldið fái endurnýjað umboð, að sú heimild sem Alþingi gaf til að fara í þessar viðræður verði endurnýjuð vegna þess að svo mikið hafi breyst frá því að fyrst var farið af stað. Þar tek ég undir með hv. þingmanni, mér virðist sú þingsályktunartillaga sem samþykkt var í þinginu á grundvelli meirihlutaálits utanríkismálanefndar á þeim tíma hafa breyst töluvert. Ég spyr því hv. þingmann hvort það sé rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meti það þannig að það miklar breytingar hafi orðið frá því að Alþingi samþykkti að hefja þetta ferli að ástæða sé til að taka málið upp á þinginu að nýju.

Í öðru lagi langar mig að inna hv. þingmann eftir orðum sem ég held að hv. þingmaður hafi látið falla hér um að málið sé unnið á forsendum Evrópusambandsins. Er sá skilningur minn réttur að Ísland hafi gengið inn í fyrir fram ákveðið verkferli sem gert er ráð fyrir að endi með því að ríki sem er í þessu verkferli samþykki að ganga inn í Evrópusambandið? Er það grundvöllur þessa verkferlis alls að enda með inngöngu?