140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skýrsla um verðtryggð íslensk íbúðalán hefur verið talsvert til umræðu og ég hef lýst þeirri skoðun minni að óhjákvæmilegt sé að koma til móts við þau heimili með lækkun skulda eða öflugum bótum til þeirra sem keyptu húsnæði á árabilinu 2004–2008. Hér kemur einkum þrennt til. Í fyrsta lagi það að við höfum víðfeðmara verðtryggingarkerfi en þekkist annars staðar og með þeirri miklu verðbólguholskeflu sem hér reið yfir í kjölfar kreppunnar hafa skuldir heimila hækkað meira en dæmi eru til um í okkar heimshluta og það reynir auðvitað á heimilin og fjölskyldurnar sem við það þurfa að búa. Í öðru lagi hafa þær á sama tíma orðið fyrir fjölþættum áföllum, falli á eignaverði og samdrætti í kaupmætti, svo fátt eitt sé nefnt, sem enn þrýstir á þetta. Loks gerir útslagið þegar Hæstiréttur Íslands hefur endanlega úrskurðað að þeir sem tóku erlend lán — og það voru þeir sem voru í betri efnum en aðrir því menn þurftu að eiga eiginfjárhlutfall til að geta gert það — munu njóta miklu betri kjara um langt árabil á sínum skuldbindingum og orsakar það verulegt ójafnræði milli hópa í þágu þeirra sem eignameiri eru og tekjuhærri. Þá er óhjákvæmilegt að við því sé brugðist.

Ég hef viðrað í þessu efni hugmyndir um að nýta skattinneign í séreignarsjóðum og vildi upplýsa þingheim um að ég hef látið vinna skýrslu um það efni af endurskoðunarfyrirtæki hér í borg sem ég geri ráð fyrir að verði tilbúin í vikulokin eða á vinnudegi þingflokka á mánudaginn kemur ætti að vera færi á því ef þingflokkar óska eftir að fá kynningu á niðurstöðum hennar. Þá geri ég ráð fyrir að ítarlega verði farið yfir hvað það þýðir í fjárhæðum einfaldlega og hvernig gæti gengið fyrir sig með praktískum hætti að nýta þessa uppsöfnuðu skattinneign til að styrkja stöðu Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við þá lánþega sem þar eru með verðtryggð íbúðalán og síðan auðvitað í tengslum við það að þrýsta á um aðgerðir gagnvart öðrum verðtryggðum íbúðalánum í landinu, hvort sem það er í Landsbankanum, sem við höfum auðvitað sterk tök á, öðrum viðskiptabönkum sem og í (Forseti hringir.) lífeyrissjóðum.