140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að vera rólegur í þessum ræðustól og ekki tala um gjaldmiðilsmálin. Mér heyrist að framsóknarmenn vilji tala vel um íslensku krónuna og ég ætla ekki að vera í því liði. Mig langar að ræða aðeins um menningarsamninga sem gerðir eru víða um land og er ágætt að hafa þar í huga að til menningarhúsa í Reykjavík er varið um það bil 4 milljörðum kr. en þegar kemur að menningarsamningum tveimur úti á landi eru þeir eitthvað í kringum 300 millj. kr. Þarna er töluverður munur á.

Ég var einn af þeim sem stóðu að því að kanna möguleika þess hvort færa ætti safnliði menningarmála út á land til menningarráða heima í héraði. Ég er almennt á þeirri skoðun að það eigi að færa valdið meira út til fólksins og taldi þess vegna eðlilegt að skoða möguleika á því að færa þessa umtöluðu safnliði yfir til menningarmálaráðherra. (Gripið fram í.) Nú er ég hins vegar orðinn efins vegna þess að (Gripið fram í.) það er að koma í ljós fjöldi óánægjuradda víða um land um að fjárlagavaldið í þessum efnum sé í auknum mæli komið inn til ráðuneytanna. (Gripið fram í.) Ég vildi ekki að svo færi og þess vegna vil ég koma hér upp í ræðustól og miðla þeirri skoðun minni að ef til vill beri að endurskoða þessa ákvörðun ef það leiðir til þess að ráðuneytin ætli að taka aukin völd frá fjárlagavaldinu til sín í stað þess að færa þetta vald heim í hérað eins og mín skoðun og mín ákvörðun byggði á.

Það má ekki verða til þess að peningar renni sjálfkrafa til menningarhúsanna í Reykjavík svo milljörðum skipti en þegar við ætlum að færa aukið vald út til landsins hvað fjármuni snertir fari það vald ekki út á land heldur frekar inn í ráðuneytin. Ég mun ekki taka þátt í því. (GÞÞ: Þetta var þín ákvörðun.) (Gripið fram í: Já.) Var ég ekki að útskýra málið? [Hlátur í þingsal.]