140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Sem sveitarstjórnarmaður til margra ára hér í eina tíð átti ég nokkrar ferðir hingað suður til Reykjavíkur ásamt bæjarstjórnarmönnum norðan úr Ólafsfirði til að heimsækja þingið og þingnefndir. Þetta voru ekki allt sérstaklega uppbyggilegar eða skemmtilegar ferðir en þó, einhvern árangur báru þær af og til. Mér er sérstaklega minnisstæður einn fundur sem við fórum á, þrír bæjarstjórnarmenn ásamt bæjarstjóra, nefndarfundur þingsins, að fyrir framan okkur sátu fjórir alþingismenn, einn sofandi reyndar, einn las í blaði þegar við gengum inn og var að fletta sömuleiðis þegar við gengum úr salnum, tveir virtust vera með meðvitund, annar þeirra var formaður nefndarinnar sem spurði kurteislega nokkurra spurninga og hinn þingmaður sem gerði það sömuleiðis. Þarna sátum við sem sagt þrír bæjarstjórnarmenn, bæjarstjóri og einn starfsmaður með okkur, ef ég man rétt, á nefndarfundinum eftir að hafa eytt talsverðum tíma í að undirbúa ferðina, haldið fundi í bæjarstjórnum með embættismönnum bæjarfélagsins o.s.frv., eins og gengur og gerist, og hétum því þegar við gengum þarna út, einhverjir, að þetta skyldum við aldrei gera aftur.

Nú nefni ég þetta hér í samhengi þeirrar umræðu sem átti sér stað hér í gær um ákveðinn nefndarfund og beini því til forseta og þá forsætisnefndar hvort ekki sé rétt að endurskoða reglur um nefndafundi. Nú er ekkert í þingsköpum sem bannar mönnum að sofa á nefndafundum sérstaklega en það eru fleiri tækifæri til þess núna að vera annars staðar en á fundinum, í tölvum, farsímum og öðru slíku, hvort ekki sé rétt að endurskoða þingsköp Alþingis með þetta í huga. Ég veit að endurskoðun þeirra stendur nú yfir og er í umfjöllun í ákveðinni þingnefnd, með það í huga að skerpa á því að nefndarmenn (Forseti hringir.) sinni störfum sínum betur á nefndafundum en gerist í dag. Það er misbrestur á því, við verðum bara að viðurkenna það, að mörgu leyti, og þeir sýni þá gestum sínum þann trúnað sem þeim ber sem er sömuleiðis (Forseti hringir.) misbrestur á.