140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég held að forseti þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að ég ætli að fara að ræða um það rugl sem kom frá þingmönnum Samfylkingarinnar hérna áðan. Það vita allir að Samfylkingin er sértrúarsöfnuður en ekki stjórnmálaflokkur þannig að það kemur okkur ekkert á óvart lengur í málflutningi þeirra. (Gripið fram í: Segir þessi …)

Ég ætla hins vegar að gera smáathugasemd við fundarstjórn forseta varðandi það hversu illa var tekið á ólátum fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sem líður greinilega mjög illa að vera kominn út í sal. Það var hins vegar ekki aðalefnið. Aðalefnið er að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta hér í gær sem að mínu mati var mjög ámælisverð, sérstaklega í ljósi þess sem hefur komið í ljós síðan. Hér var þingmaður, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, borin alvarlegum sökum og bað um að fá að bera af sér sakir en var meinað að koma hér upp til að bera af sér sakir. Það var gert hlé á þingfundi og þegar fundur var settur aftur byrjaði hæstv. forseti fundinn á því að lýsa því yfir að þingmaðurinn hefði brotið þingsköp og byggði það eingöngu á málflutningi flokkssystur sinnar að því er virtist, málflutningi sem reyndist rangur, þar höfðu komið fram rangfærslur. (Forseti hringir.) Engu að síður byggði hæstv. forseti úrskurð sinn eingöngu á þessum málflutningi (Forseti hringir.) án þess að gefa þingmanni tækifæri til að svara fyrir sig.