140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er í þremur tölusettum liðum til að gera svör einfaldari.

1. Er hæstv. ráðherra sammála hæstv. forsætisráðherra um að gjaldmiðill landsins, íslenska krónan, sé ónýt?

2. Telur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að slíkar yfirlýsingar séu til þess fallnar að auka trúverðugleika gjaldmiðilsins, auka áhuga erlendra manna á að eiga íslenskar krónur eins og mér skildist að hæstv. ráðherra hefði verið að vinna að undanfarin ár, auka líkurnar á því að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin eða bæta hag íslenskra heimila með því að styrkja gengið og draga úr verðbólgu? Telur hæstv. ráðherra að svona yfirlýsingar séu til þess fallnar að gera allt þetta?

3. Telur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að einhver annar forsætisráðherra í heiminum hefði látið slíkar yfirlýsingar falla um eigin gjaldmiðil?