140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

fjölgun starfa.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi fylgst með því hvað ríkisstjórnin hefur lagt til og lagt fram að því er varðar atvinnumálin, bæði hjá hinu opinbera og á einkamarkaði. Þar er ýmislegt í gangi í fjárfestingarsamningum sem hafa verið gerðir. Ýmislegt mun stuðla að atvinnuuppbyggingu, ekki síst fyrir norðan og að einhverju leyti hér fyrir sunnan. Ýmsar opinberar framkvæmdir eru í gangi sem munu hjálpa okkur verulega að því er varðar atvinnumálin.

Vonandi kemst Landspítalinn af stað fyrr en seinna. Við erum með ýmislegt í framkvæmdum að því er varðar stúdentagarða, hjúkrunarheimili o.s.frv. Allt þetta höfum við verið að skoða og reikna inn og vel er fylgst með þessu í sérstakri atvinnumálanefnd, ráðherranefnd á vegum ríkisstjórnarinnar. Þar er reglulega fylgst með þessu og ég held að við getum alveg verið sæmilega bjartsýn á að þær áætlanir (Forseti hringir.) sem við höfum sett fram í þessu efni (Forseti hringir.) muni halda.