140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég vildi vekja athygli á því, herra forseti, og þakka hv. þingmanni fyrir svörin, að undirstaða útlána er sparnaður. Það verður ekkert lánað út nema einhver annar spari. Ef menn ætla að brjóta þá reglu brestur á óðaverðbólga.

Menn verða að fara að huga að sparifjáreigandanum og reyna að búa hann til, því að hann er að hverfa. Það er til dæmis ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Sparifjáreigendur þurfa að hlíta því. Það eru neikvæðir vextir á meginhluta sparnaðar, 80% af sparnaði er á óverðtryggðum reikningum. Það eru neikvæðir vextir á því, þeir vextir eru skattaðir með 20% þannig að tapið er skattlagt. Þetta er svo óheyrilegt því að þetta er oft og tíðum eldra fólk sem getur ekki varið sig og hefur verið ráðdeildarsamt um ævina, ekki farið í eins miklar ferðir og aðrir, ekki keypt sér flotta jeppa og bíla og ekki stundað eyðslu og glannaskap sem hefur komið þjóðfélaginu í koll. Nú er verið að refsa því, herra forseti. Ég er ekki sáttur við það. Ég vildi gjarnan að málið yrði tekið inn í nefndina aftur og þetta atriði sérstaklega tekið inn í þingsályktunina.