140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar sem útskýrði heilmargt og greinilegt að gamlir sveitarstjórnartaktar komu fram, að hlutirnir séu algjörlega á hreinu varðandi hvað verður fært yfir til sveitarfélaganna, og ekki síst skýr skilgreining á því hvaða heilbrigðisþjónustu er um að ræða.

Hv. þingmaður kom aðeins í lokin inn á málaflokk fatlaðra og að hann hefði verið færður yfir til sveitarfélaganna, og ég var eindreginn stuðningsmaður þess. Það er rétt að undirstrika að ég tek undir þessa þingsályktun. Ég held að þetta sé rétt skref til að bæta nærþjónustuna. Tilgangurinn með færslunni á málaflokki fatlaðra yfir til sveitarfélaganna var meðal annars sá að bæta hana, og þess vegna var gunnskólinn á sínum tíma færður yfir til sveitarfélaganna. Við höfum líka snert aðeins á hugsanlegum flutningi framhaldsskóla, sem ég held að sé síðari tíma mál, en það er engu að síður mál sem á að taka í þessu samhengi varðandi nærþjónustuna og ábyrgð sveitarfélaga á skólarekstri.

Ég velti fyrir mér, af því að tiltölulega stutt eða rúmt ár er síðan að við fluttum málaflokk fatlaðra yfir, hann færðist yfir til sveitarfélaganna um áramótin 2010/2011, og nú er kominn ákveðinn reynslutími á það. Hvernig sér hv. þingmaður það tengjast þessu máli? Getur verið að yfirfærslan á heilsugæslunni, að heilsugæslan verði færð sem allra fyrst til sveitarfélaganna, styðji meðal annars verkefni sveitarfélaganna fyrir fatlaða?

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði áðan að ég styð að þessi áætlun liggi fyrir eigi síðar en í árslok, ekki síst í ljósi þess að mörg mál brenna á nærþjónustu sveitarfélaga sem tengjast ekki bara málefnum fatlaðra heldur ýmsum öðrum þáttum, m.a. skólunum. Ég held að með aukinni samvinnu (Forseti hringir.) og samrekstri innan sveitarfélaganna, heilsugæslu og skóla getum við þjónustað fólkið okkar í landinu enn betur. (Forseti hringir.) En mér leikur hugur á að vita um tengslin við fatlaða.