140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

skipulagslög.

105. mál
[15:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál fái afgreiðslu á Alþingi. Markmið mitt með því að leggja málið fram var einmitt að setja skýran ramma utan um það hvernig stjórnsýslan meðhöndlar aðalskipulag. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd tók þá afstöðu að setja umhverfisráðherra ákveðinn tímaramma upp á sex vikur til að afgreiða tillögu Skipulagsstofnunar um synjun eða frestun. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það sem maður hefur oft heyrt varðandi atvinnusköpun eða þegar fyrirtæki vilja til dæmis staðsetja sig einhvers staðar og hefja atvinnurekstur er eitt af því sem bent er á að þau vilja að sjálfsögðu fara eftir þeim lögum og reglum sem eru til staðar í landinu en vilja líka gjarnan geta gert sín tímaplön. Hið sama hefur síðan gilt (Forseti hringir.) um starfsemi sveitarstjórna sem bera náttúrlega ábyrgð á því að ljúka skipulagi í sínu sveitarfélagi, (Forseti hringir.) að með því að setja þennan (Forseti hringir.) tímaramma núna, ekki bara fyrir Skipulagsstofnun heldur líka ráðherrann, (Forseti hringir.) held ég að það verði til hagsbóta fyrir alla sem koma að skipulagsmálum. Því segi ég já.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna að þeir virði þann ræðutíma sem þeir hafa til atkvæðaskýringa.)