140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

346. mál
[17:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja hv. framsögumann nefndarálitsins, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, hvort eitt atriði hefði verið rætt í nefndinni í tengslum við þetta mál. Það varðar varðveislu gagna sem eingöngu eru gefin út með rafrænum hætti. Þetta tengist því að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum nú til meðferðar frumvarp til upplýsingalaga og þar veltum við fyrir okkur nákvæmlega þessu: Hvað um þau gögn sem eingöngu eru gefin út með rafrænum hætti, t.d. Stjórnartíðindi, Lögbirtingablað og annað þess háttar, og eftir atvikum lagasafn? Hvernig er gengið úr skugga um að það sem gefið er út með slíkum hætti sé þannig frágengið að því sé ekki unnt að breyta eftir á?

Ég er að velta fyrir mér hvort þetta atriði hefur komið til skoðunar vegna þess að það er þekkt stjórnunaraðferð í miður geðfelldum ríkjum að breyta fortíðinni. Fræg dæmi um það eru meðal annars úr bókinni 1984 eftir George Orwell þar sem stór deild í sannleiksráðuneytinu vann við að breyta fréttum fortíðarinnar til að láta það passa við atburði samtímans. Ég velti fyrir mér: Hefur þetta atriði með einhverjum hætti verið rætt á vettvangi hv. allsherjarnefndar í tengslum við þetta mál?