140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem einkennir þetta frumvarp og er í raun og veru áréttað í nefndaráliti meiri hlutans er að það felur í sér gríðarlega mikið valdaframsal frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins gagnstætt því sem menn hafa verið að tala um úr ræðustóli Alþingis að þurfi að gerast.

Vakin er á því athygli í áliti meiri hlutans, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Meiri hlutinn bendir á að alþekkt er sú staðreynd að löggjafarþróun síðustu áratuga hefur einkennst í ríkari mæli af því að öll nánari útfærsla lagasetningarvalds hefur í stórum stíl verið flutt í hendur framkvæmdarvaldsins í formi reglugerðarheimilda eða leyfisveitinga.“

Hérna er þetta sem sagt sagt skýrt. Þetta hefur kallað fram mikla gagnrýni víða. Lögspekingar — og ég vek sérstaka athygli á því að umboðsmaður Alþingis hefur mjög gagnrýnt að þetta framsal á löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins hafi opnað fyrir alls konar hluti sem eru óæskilegir. Við í atvinnuveganefnd höfum t.d., og síðast í morgun, fjallað um slík mál þar sem verið er að reyna að lögfesta viðmið með miklu skýrari hætti en gert hefur verið vegna athugasemda umboðsmanns Alþingis.

Nú er hins vegar, á þessum sama degi, verið að fjalla um frumvarp sem felur það í sér að opna fyrir þessar miklu almennu heimildir og ekki bara það heldur er eins og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar fagni því eða telji að minnsta kosti að þannig eigi þetta að vera og bætir í með þessum opnu heimildum. Þetta finnst mér vera mikið áhyggjuefni í ljósi þess sérstaklega sem hv. þingmaður nefndi áðan, þ.e. hvernig í raun og veru er verið að opna fyrir heimildir sem geta leitt til þess að eignarréttur eða eignir skerðist. Þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort verið sé að ganga svo langt að farið sé í bága við sjálfa stjórnarskrá Íslands.

Þetta er atriði sem hv. þingmaður kom inn á. Ég verð að biðja hv. þingmann að bregðast við þessum hugleiðingum mínum og því hvort hann telji þetta vera (Forseti hringir.) æskilega þróun sem greinilega á sér stað í umhverfisréttinum í landinu.