140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í Danmörku, svo dæmi sé tekið, eru mjög rúmar rannsóknaraðferðir. Þar er starfandi öflug leyniþjónusta á vegum lögreglu og einnig á vegum hers. Þar er einnig mikill ásetningur stjórnvalda að taka á málum af mikilli hörku og helst kæfa starfsemi af þessu tagi í fæðingu. Engu að síður eru þessir hópar mjög sterkir í Danmörku.

Við erum að stíga markviss skref og af staðfestu og yfirvegun og menn mega trúa að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Íslandi hafa þegar skilað árangri. Það sem mestu máli skiptir er að við förum ekki hvert fram úr öðru í þessum efnum heldur stígum varlega til jarðar og gerum hlutina saman sem samfélag. Það er það sem fyrst og fremst skilar okkur árangri. Síðan er á hitt að líta að við þurfum að búa þannig að lögreglunni með (Forseti hringir.) fjárframlögum og starfsaðstöðu að hún geti rækt sitt ætlunarverk vel og nýtt þau (Forseti hringir.) lög sem eru þegar í gildi í landinu.