140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:49]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að heimildir, jafnvel þó að þær séu víðtækar, séu af hinu góða. Þær krefjast þess hins vegar að eftirlitið með notkun þeirra sé gott og það sé hlutlaust. Þurfum við að breyta lögum um persónuvernd? Ég tel ekki að svo sé vegna þess að þeir sem skipuleggja og taka þátt í brotastarfsemi hafa á margan hátt afsalað sér þeirri vernd sem persónuverndarlögin veita þeim. Þeir hafa tekið stöðu utan laga og réttar og um þá eiga þá að gilda þær reglur sem siðað samfélag vill hafa til þess að hemja starfsemi þeirra.

Geta afbrotamenn komið sér undan refsingu með því að brotnar hafi verið á þeim reglur við rannsókn mála — væntanlega ekki komið sér undan refsingu — en geta þeir eignast skaðabótarétt? Já, hugsanlega ef brotið hefur verið á þeim með einhverjum hætti, þá er ég alveg til í að taka það. Ég hef meiri áhyggjur af þeim saklausu sem verða fyrir slíku. Og þar tel ég að eftirlitið og þess vegna ríkar bótaheimildir af hálfu þess sem fyrir verður eigi að vera fyrir hendi til þess að hemja starfsemi ríkisins eða réttarvörsluaðila á þessu sviði.