140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að ræða hér aðeins vinnubrögð á Alþingi og kannski af því tilefni sem uppákomur í þinginu í gærkvöldi og nótt gáfu. Ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að mér mislíkaði allnokkuð hvernig staðið var að málum þegar til stóð og var á dagskránni að vísa tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til síðari umræðu. Ég ætla samt ekki að dvelja við það því að mikið var sagt um það mál í nótt. Ég ætla ekki að dvelja við það frekar. Ég ætla þó hins vegar að minna á að á vettvangi Alþingis í sérstakri þingskapanefnd fer fram vinna að því að endurskoða þingsköp og meðal verkefna þeirrar nefndar er að reyna að bæta vinnubrögð og skipulag þingstarfa. Vinnan á vettvangi þeirrar nefndar hefur að mínu mati verið góð, þó að gærkvöldið hafi, eins og ég sagði, ekki verið eins gott og hugsast getur í því efni.

Ég tel, virðulegur forseti, að við þær aðstæður sem skapast ef ágreiningur verður uppi um vinnubrögð eða verklag geti tortryggnin og reiðin tekið völdin. Það eru aldrei góðir fararnautar í þingstörfum. Við þurfum að sjálfsögðu að líta aðeins inn á við og gera betur. Við eigum að takast á um málefni eins og við gerum hér dagsdaglega, bæði í nefndum og í þingsal. Það er eðlilegt og það er hluti lýðræðisins, en við þurfum að vinna að því að koma okkur saman um góðar og heilbrigðar starfsreglur á vettvangi Alþingis þannig að ekki þurfi að koma til þess að menn deili um þær leikreglur sem gilda í samskiptum þingmanna enda þótt skoðanir manna á einstökum málum séu og hljóti alltaf að vera býsna mismunandi.

Við erum auðvitað keppnisfólk. Okkur getur orðið heitt í hamsi en við þurfum að sameinast um breytingar á vinnubrögðum í þingsal, þinginu til sóma og (Forseti hringir.) þingmönnum til sóma.