140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um það sem hv. þingmaður nefndi um veiðigjaldið þá vísaði ég í frumvarpið sem er næst á dagskrá. En, já, ég sem starfandi sjávarútvegsráðherra stend á bak við það frumvarp um veiðigjöld sem lagt hefur verið fram. Við þurfum hins vegar miklu ítarlegri umræðu um hvernig því er fyrir komið. Grundvallarafstaða mín er að eðlilegt sé að fólk greiði ákveðið auðlindagjald. Um það hefur verið rætt á hinum pólitíska vettvangi. Það má hins vegar deila um það, eins og hv. þingmaður spyr um, hvort við séum að mismuna þeim sem fóru á sínum tíma inn í kvótakerfið og þeim sem síðan hafa keypt sig inn í kvótakerfið. Það er oft mjög erfitt að leiðrétta slíka hluti aftur á bak eins og mér finnst hv. þingmaður vera að spyrja um.

Lykilatriðið er hins vegar að við höfum ákveðið að gera ákveðnar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða til að ná fram því mikla grundvallaratriði um sameign þjóðarinnar að greitt verði eðlilegt auðlindagjald af þeim sem nýta auðlindina og í þriðja lagi að opnað verði fyrir ákveðna möguleika á nýliðun, því að við vitum öll að þeir hafa ekki verið miklir.