140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér er mælt fyrir á Alþingi í dag er málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða, annars vegar um það að hafa eigi núverandi kvótakerfi óbreytt, sem ljóst er að hefur verið gríðarlega mikil andstaða við hjá öllum almenningi í landinu, og hins vegar þess að innkalla eigi í einu lagi allar aflaheimildir af útgerðinni. Milli þessara sjónarmiða er farinn meðalvegur sem miðar að því að tryggja stöðugleika í sjávarútveginum, rekstrarskilyrði fyrir þau fyrirtæki sem þar eru, góða hagnaðarvon fyrir þá sem þau fyrirtæki eiga en innsigla um leið að auðlindin sé sameign þjóðarinnar allrar, innsigla að hægt sé að gera breytingar á kerfinu og það hafi ekki verið framselt með neinum ævarandi hætti og tryggja þjóðinni eðlilega hlutdeild í góðum árum þegar mikill umframhagnaður er í greininni.

Við Íslendingar erum gæfusamir í mörgu. Eitt af því sem hefur reynst okkur mikil gæfa er sú staðreynd að hér lætur nærri að landað sé 10 kílóum af fiski á hvern Íslending á hverjum degi allan ársins hring, 10 kílóum á hvern mann á hverjum degi allan ársins hring. Það eru gríðarlegar náttúruauðlindir sem einni þjóð eru þannig gefnar. Það er ástæðan fyrir því að hér er og verður margfalt meiri matvælaframleiðsla en við þurfum okkur til framfæris, forsendur fyrir því að við getum notið gríðarlega mikilla útflutningstekna og sömuleiðis forsendurnar fyrir því, sé gert út á þessar miklu auðlindir með hagkvæmum hætti, að hægt er að stunda hér mjög arðsaman sjávarútveg, sem betur fer. Hann hefur raunar vegna stöðu gengisins hin allra síðustu ár skilað ótrúlega miklum hagnaði og það er ekki nema eðlilegt á þeim erfiðu tímum sem Íslendingar nú lifa, þegar fólkið í landinu og öll venjuleg fyrirtæki þurfa að búa við býsna erfið rekstrarskilyrði og miklar álögur og við þurfum að rétta af sameiginlegan sjóð landsmanna, að gert sé tilkall til þess að nokkur hluti þessa mikla umframhagnaðar skili sér til almennings.

Auðlindanefndin sem hv. þm. Bjarni Benediktsson vísaði til áðan kynnti veiðigjald að sínu leyti. Og hvaða tölur voru það? Hvaða tölur voru það framan af síðasta áratug sem skiluðu sér til almennings með því veiðigjaldi? Ætli það hafi ekki verið einhvers staðar um og innan við 1 kr. fyrir hvert kíló sem veitt var? Ætli allar hinar miklu álögur sem þessi stjórn hefur staðið fyrir í þessu efni geti ekki numið svo sem eins og kannski 5 kr. af þeim 10 kílóum sem landað er á hvern Íslending á hverjum degi? Hér er ekki lagt til að þær álögur verði auknar með neinum hætti. Veiðigjaldið, hið fasta gjald verður ekki aukið. En umframhagnaður, hagnaður umfram 8–10% af arðsemi af allri fjárfestingu og öllum rekstrarkostnaði, er skattlagður.

Fréttabréf Landssambands íslenskra útvegsmanna kallar það að útgerðin sé þjóðnýtt og vegna þess að hér eru milljarðahagsmunir undir eiga eftir að heyrast næstu vikur alls kyns upphrópanir um að hér sé verið að ríða öllu á slig og útgerðin muni ekki lifa af það frumvarp sem hér er á ferðinni. Ég vil segja mönnum að af því þarf ekki að hafa áhyggjur.

Við getum tekið dæmi af fyrirtæki í mínu kjördæmi, HB Granda sem er hér við Faxaflóann og raunar víðar um land og er með á einu rekstrarári hagnað upp á 6,2 milljarða. Hvað greiðir félagið í veiðigjald af 6,2 milljarða hagnaði? Það mundu vera rétt um 400 millj. kr. Af þeim mikla umframhagnaði á þessum sérstöku tímum þegar gengi krónunnar er svo gríðarlega veikt, með öllum þeim mikla kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir annað atvinnulíf og heimili í landinu, er gert ráð fyrir að félagið skili kannski um 1,2 milljörðum, þ.e. samanlagt um 1,6 milljörðum. Eftir eru eigi að síður 4,6 milljarðar í hagnað hjá einu fyrirtæki, þrír fjórðu hlutar hagnaðarins. Ég held að þetta dæmi sýni ágætlega að hér er ekki verið að gera neitt óeðlilegt tilkall til arðsins af auðlindinni sem þjóðin sannarlega á tilkall til. Hitt er svo rétt að ef einstök fyrirtæki eru drekkhlaðin skuldum af kröfuhöfum sínum eða lánastofnunum langt umfram eðlilegt eignaverð þeirra fyrirtækja og ef búið er að stilla upp rekstrarreikningi einhverra fyrirtækja þannig að þau eigi bara rétt svo að skrimta árum og áratugum saman getur verið að það að kalla eftir einhverjum arði breyti þeim forsendum og þess verði einhver dæmi. Auðvitað. Slík fyrirtæki munu aldrei þola neinar frekari arðskröfur. Kröfuhafarnir verða þá bara að horfast í augu við að þeir geta ekki gert svo miklar skuldsetningarkröfur á þau fyrirtæki, ellegar að önnur hagkvæmari og betur rekin fyrirtæki munu bara taka að sér að veiða þær heimildir sem um ræðir.

Við skulum ekki gleyma því að kvótakerfið var sett á til að auka hagkvæmni í sjávarútvegi. Auðvitað geta breytingar á kerfi leitt til þess að einstaka fyrirtæki sem eru allt of skuldsett eða ekki hagkvæm í rekstri standist ekki breytingar á fyrirkomulaginu og þurfi annaðhvort að endurskipuleggja sig eða fela öðrum betur reknum fyrirtækjum að annast um verkefnið. Það mun ekki verða til þess að fiskurinn verði ekki veiddur. Það mun ekki verða til þess að fiskurinn verði ekki seldur úr landi eða að þessi þjóðarframleiðsla verði ekki til. Það mun einfaldlega þýða að auknar arðskröfur munu knýja fram aukna hagkvæmni í greininni. En það er auðvitað hlutverk okkar í þinglegri meðferð að fara grannt yfir það hvort í flókinni grein eins og sjávarútvegi geti verið að finna ákveðna hópa fyrirtækja sem stunda sérhæfðar veiðar sem með einhverjum hætti kæmu illa út úr þessu. Þá taka menn auðvitað tillit til þess í umsagnarferlinu. Meginhagsmunir allra á Íslandi og allra í þinginu eru að tryggja stöðugleika fyrir greinina og stöðugleikinn fæst með 20 ára samningum um stóran hluta aflaheimildanna í stað þess óöryggis sem greinin hefur búið við um langt árabil vegna almennrar andstöðu við núverandi kvótafyrirkomulag. Hagsmunir greinarinnar eru stöðugleikinn, það að geta skipulagt sig vel fram í tímann, og hagsmunir almennings eru að tryggja sanngjarnt endurgjald. Um leið er mjög veruleg arðsvon í sjávarútvegi og við núverandi skilyrði gríðarlegur hagnaður eftir sem áður því þau einu gjöld sem hér er verið að leggja á eru skattur á umframhagnað, hagnað umfram þá ávöxtunarkröfu sem eðlileg er. Þetta er mikilvægt að allir hafi í huga.

Það er um leið fagnaðarefni að það tekst að opna nokkuð fyrir nýliðun. Margir hefðu auðvitað viljað ganga miklu lengra í því. Ég hygg að í mínum flokki hafi þau sjónarmið kannski verið hvað sterkust, vegna þess að við höfum meðal annars haft mjög miklar áhyggjur af áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að skemmra hefði alls ekki mátt ganga í því efni en gengið er í þessu frumvarpi. En það munar svo sannarlega um þær veiðiheimildir sem hér er gert ráð fyrir að fari í leigupott og menn hafi aðgang að á jafnræðisgrundvelli. Það er líka fengur að því fyrir byggðirnar hringinn í kringum landið og hin smærri fyrirtæki að hér tekst að treysta í sessi strandveiðikerfið sem þessi stjórnarmeirihluti innleiddi og hefur gefið svo mörgum tækifæri til að sækja björg í bú og nýta miðin við landið til veiða af því tagi.

Kannski ætti það að vera markmiðið með frumvarpi um jafnumdeilt mál og þetta að allir hópar yrðu jafnóánægðir og kannski verður það niðurstaðan. Ég held þó að ekki sé ástæða til þess, hvorki fyrir útgerðina né fyrir hina sem hafa kallað eftir breytingum á kerfinu, að fjalla þannig um málið. Sannarlega er fjölbreytilegur ávinningur í þessu fyrir þá sem kallað hafa eftir skýrri þjóðareign, skýrum rétti Alþingis til að innkalla til lengri tíma veiðiheimildir, hafa kallað eftir leigupottum, strandveiðum og öðrum slíkum hlutum, auk þess sem arður almennings af auðlindinni er auðvitað mikilvægur fyrir þá sem hafa haldið uppi þeim sjónarmiðum. Þeim sem hafa talað fyrir útgerðina og fyrir óbreyttu kerfi hlýtur að vera ljóst að sú mikla óvissa sem verið hefur um greinina og framtíð hennar, ekki vegna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur vegna andstöðu mikils meiri hluta þjóðarinnar við fyrirkomulagið, er slæm og það að létta þeirri óvissu og tryggja framtíðarrekstrarskilyrði greinarinnar, forsendur hennar fyrir því að ráðast í fjárfestingu, sanngjarnt endurgjald til almennings fyrir þau forréttindi sem veiðileyfin eru, eru meginhagsmunir sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn á fyrst og síðast að vera stoltur af því að það koma ár í rekstri hans þar sem hann er aflögufær vegna þess að markaðsaðstæður eru gríðarlega góðar, vegna þess að gengi krónunnar er mjög veikt. Þá er að jafnaði erfitt árferði í flestum öðrum greinum í íslensku samfélagi og mikilvægt að sjávarútvegurinn geti létt undir með róðrinum á þeim tíma. Hitt er ekki síður mikilvægt í útfærslu þeirrar gjaldtöku sem hér hefur verið kynnt að á árum þegar gengið er sterkt, þegar erfitt er að vera í sjávarútvegi eins og til að mynda á árunum 2004–2005, fellur auðlindarentugjaldið algerlega út. Þannig held ég að sé einfaldlega skynsamlegt fyrir Íslendinga að haga gjaldtöku af sjávarútvegi. Ég held að þeir sem hafa kynnt sér hagsögu landsins og þann gríðarlega þrýsting á efnahagslífið sem fylgir því þegar mikill umframhagnaður er í sjávarútvegi með tilheyrandi þrýstingi á launamyndun í öllu landinu og víxlverkanir á áhrifum verðlags og verðtryggingar eigi að sjá að það sé í þágu heildarhagsmuna að þegar þannig árar leggi sjávarútvegurinn aukalega til en sé hlíft þegar verri rekstrarskilyrði eru.