140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það svo að frumvarpið miðar ekki að mestu hagkvæmni sem hugsast getur, það er alveg ljóst. Fyrir okkur sem erum áhugamenn um hagkvæmni er það alltaf áhyggjuefni þegar teknar eru ákvarðanir um að draga úr hagkvæmni. Eins og ég sagði í ræðu minni er hér um að ræða málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Hér eru byggðasjónarmið, félagsleg sjónarmið, sjónarmið um vinnumarkað og margvísleg önnur sjónarmið en hagkvæmnissjónarmið sem þarf að vega saman. Ég tel að niðurstaðan í því sé ásættanleg. En ég hef alltaf verið voða skotinn í hugmyndum Péturs H. Blöndals um að senda þjóðinni bara kvótann og ef við náum ekki að gera þetta frumvarp að lögum er kannski bara rétt að gera það í tengslum við næstu alþingiskosningar.