140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[00:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki lengja þessa umræðu en ég vildi spyrja hv. þingmann þar sem hann er kunnugur sveitarstjórnarmálum og ræddi um það áðan að úr þessum ágæta kvótaþingssjóði ættu 40% að fara til sveitarfélaga: Hvernig telur hann að samkomulagið verði hjá sveitarfélögunum um að skipta þessum bita? Það er á hreinu hvað ríkið fær, eða 40%, og eins það sem fer í þróunarsjóð sem er tengdur sjávarútvegi en hvað um sveitarfélögin? Telur hv. þingmaður vegna reynslu sinnar af sveitarfélögum að til dæmis Akureyri verði sátt við að Ísafjörður fái allt eða Skaftárhreppur eða hvaða sveitarfélög eiga að fá þennan sjóð, þessi 40% sem verða umtalsverðir fjármunir? Verður það sjónarmiðið að þau sveitarfélög sem eru í útgerð núna eigi að fá þetta eða hin sem hafa misst útgerðirnar frá sér eða sveitarfélög sem aldrei hafa verið í útgerð og af því að þetta er nú sameign þjóðarinnar ætti þetta kannski helst að fara þangað?