140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ég og hv. þingmaður séum mjög sammála um það að ganga eigi eins skammt og hægt er í að framselja vald frá þinginu til einstakra ráðherra og það þurfi ávallt að vera ríkt tilefni til að gera slíkt.

Ég tel að þetta sé efni fyrir nefndina til að taka til frekari skoðunar, hvort það kunni að hafa verið of langt gengið þegar allt er tekið saman eins og hv. þingmaður vék að. Við höfum séð dæmi þess á umliðnum árum að býsna langt hefur verið gengið og stendur til að ganga jafnlangt á ýmsum öðrum sviðum. Ég nefni sem dæmi hversu mikið vald hefur verið framselt til Samkeppniseftirlitsins til að vega og meta tilefni til aðgerða án þess að komi skýr leiðbeining héðan frá þinginu. Það virðist líka vera í nýju frumvarpi um fjölmiðlalög, að menn séu að vísa frá sér úr þinginu yfir til stofnana eða nefnda mati á mikilvægum atriðum. Þetta tel ég ekki vera góða þróun og heilt yfir óheillaþróun í lagasetningu. Ég tel að þingið eigi að taka af skarið og setja að minnsta kosti mjög skýrar viðmiðunarreglur um hvað eigi að liggja til grundvallar slíku mati.

Það er auðvitað ásamt því sem hv. þingmaður bendir á svo margt annað sem þarf að skoða í nefndinni þó að þetta sé mikilvægur þáttur. Ég efast ekki um að nefndin er fullfær um að taka það sem þingmaðurinn vekur athygli á og alla hina þættina líka til vandlegrar skoðunar og fái til þess góðan tíma.