140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ákaflega skemmtilega ræðu hér áðan um þetta mál og þingmaðurinn má eiga það umfram aðra þingmenn í þessum sal að geta opnað á nýjar víddir í málum sem við hin höfum kannski ekki oft hugmyndaflug til að gera. Það gerir málin oft skemmtilegri og líklegri til að fá góða umfjöllun í þinginu.

Ég hjó eftir einu í fyrri hluta ræðu þingmannsins, sem endurtók sig reyndar nokkuð oft eftir það, um hótanir sem höfðu greinilega beinst að þingmönnum í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann frekar út í þær hótanir sem þarna eiga að hafa átt sér stað. Hvers konar hótanir voru þetta, hver beitti þeim, hvað fólst í þeim og hvernig átti að framfylgja þeim? Ég vil líka spyrja hvort þingmenn minni hlutans hafi gert einhverjar athugasemdir við þær eða kvartað til yfirstjórnar þingsins, jafnvel til þeirra sem fara með öryggismál í þinginu ef þetta hafa verið hótanir af því taginu. Það er auðvitað alvarlegt mál ef þingmönnum er hótað ofbeldi, pólitísku, andlegu eða líkamlegu, það kom ekki fram hvers eðlis hótanirnar voru. Og jafnvel hvort þingmaðurinn telji að þessar hótanir eigi kannski rætur sínar að rekja til ESB-umsóknarinnar, því að þangað virðast liggja margar vondar tengingar í þessu máli sem öðrum að mati þingmannsins. Í það minnsta vil ég spyrja hvort ég geti fengið frekari upplýsingar, og þingið einnig, um þessar hótanir, hverjir hótuðu, hvernig var hótað og hvernig var brugðist við af hálfu minni hluta nefndarinnar.