140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í þingræðu hefur annars vegar verið upplýst um ofbeldishótanir á nefndafundum þar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði frá því að hún og fleiri nefndarmenn í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi fengið hótanir um að þau hlytu verra af ef þau gerðu ekki eitthvað. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður í andsvari áðan að valdarán hefði verið framið á Íslandi þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin fóru úr ríkisstjórn. Mér finnast það mjög alvarlegar ásakanir af hálfu þingmanns úr ræðustól að lýsa því yfir að lögmætar kosningar sem fram fóru vorið 2009 hafi verið valdarán. Ég verð að segja eins og er að það kom mér á óvart að forseti skyldi ekki í það minnsta rísa úr sæti, hvað þá lemja aðeins í bjölluna og minna hv. þingmann á að haga orðum sínum ekki með þeim hætti sem hann gerði áðan.