140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:16]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er á sínum stað, að sjálfsögðu, að biðjast velvirðingar á því að nota slettu eins og „Besserwisser“. Það er ekki fallegt orðbragð og ég biðst velvirðingar á því.

En er ekki allt innifalið í fyrstu spurningunni? Í fyrstu spurningunni er gert ráð fyrir því að tillaga stjórnlagaráðs verði grundvöllur að vinnu næsta vetrar. Um er að ræða heildstætt skjal þar sem fjallað er á skipulagðan hátt um stjórnskipan íslenska ríkisins. Hún hefur þess vegna ákveðinn tilvistarrétt sem heildstætt skjal. Síðan fór ég yfir það í fyrri ræðu minni í löngu máli að ákveðnir þættir breyta frá núverandi stjórnskipan sem ég held að sé nauðsynlegt að leita álits þjóðarinnar á til að Alþingi hafi betra og veigameira nesti inn í mjög mikilvæga umræðu sem hér á að fara fram næsta vetur.