140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkrir þættir sem ég vil víkja að í tilefni af ræðu hv. þm. Magnúsar Norðdahls. Í fyrsta lagi tek ég undir þá ábendingu sem kom fram áðan hjá hv. þm. Pétri Blöndal um að með vissum hætti er verið að spyrja aftur um sömu hluti í hinum sérgreindu spurningum og í almennu spurningunni sem kemur fyrst, þ.e. allir þeir þættir sem vikið er að í síðari fimm spurningunum eru með einhverjum hætti tengdir ákveðnum greinum í heildarplagginu. Með vissum hætti og vissum rétti má því segja að verið sé að spyrja um sama hlutinn tvisvar.

Það sem ég vildi vekja athygli á í þessu sambandi er líka að það eru ýmis önnur nýmæli og álitamál sem tengjast tillögum stjórnlagaráðs sem ástæða er til að bera upp verði á annað borð farið út í að keyra svona spurningavagn fyrir þjóðina, eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson orðaði það fyrr í dag. Þar á meðal eru nýmæli eins og fullveldisframsalið sem við hv. þm. Ólöf Nordal höfum lagt fram spurningu um og síðan nokkur atriði sem vissulega hafa valdið umræðum og ágreiningi, t.d. það sem við segjum um stjórnarmyndunarhlutverk forseta. Það hefur ekki lítið verið talað um það og mismunandi túlkanir á því frá því að tillögur stjórnlagaráðs komu fram, ekki síst eftir að forseti Íslands vék að því máli við setningu Alþingis í haust. Að lokum er málskotsréttur eða synjunarvald forseta sem hefur verið mjög umdeilt. Ég veit ekki hvernig niðurstöður úr skoðanakönnun þjóðarinnar um það væru (Forseti hringir.) en ég veit að það er mjög umdeilt. Að minnsta kosti í tíð þriggja ríkisstjórna undanfarin sjö eða átta ár (Forseti hringir.) hefur ítrekað komið upp að forustumenn ríkisstjórnarflokka, nú síðast 2010 og 2011, hafa verið mjög ósáttir við málskotsrétt forseta.