140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hann er ótrúlegur sá málflutningur að menn séu hræddir við þjóðina af því að þeir séu ekki tilbúnir til að skrifa upp á mál sem er fullkomlega vanbúið og einstaklega illa unnið. Við erum að tala um stjórnarskrá, málið er ekki einu sinni sent til umsagnar, eins og hv. þingmaður nefndi. Þessi málflutningur er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.

Þessi ríkisstjórn, sem ekki getur unnið einföldustu mál og ekki flókin heldur, virðist ætla að koma hér á elleftu stundu, sem hún gerir alltaf, og segja við okkur hv. þingmenn: Ef þið eruð ekki tilbúnir til að henda öllu frá ykkur og gera það sem þið lofuðuð að gera, sem þið undirgengust samkvæmt stjórnarskránni, eruð þið bara hræddir við þjóðina. Það er náttúrlega ekki boðlegt og fullkomlega fyrir neðan allar hellur.

Af því að hv. þingmaður þekkir kannski betur til stjórnarliðsins en margir aðrir, vil ég spyrja: Af hverju er lögð svo gríðarlega áhersla á það hjá hæstv. ríkisstjórn að vera í átökum um öll mál? Ég mundi ætla að hægt væri að ná góðri sátt ef menn mundu vinna málið eins og fólk. Ég held að flestir stjórnmálamenn séu á því að halda fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held að flestir ef ekki allir hv. þingmenn vilji sjá einhverjar breytingar á stjórnarskránni þannig að það er vilji til þess að gera breytingarnar, en af hverju er þessi gríðarlega áhersla á að fara í slagsmál út af öllu af hálfu ríkisstjórnarinnar, virðulegi forseti?