140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi kjördæmaskiptinguna er hún ein af þeim spurningum sem maður veltir óneitanlega fyrir sér. Hvað býr að baki því að spyrja um það? Ef ég man rétt vildi þessi sami þjóðfundur einnig halda fullveldinu mjög sterku inni í stjórnarskrá þannig að orðið hafi breytingar þarna á milli. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér ólíkum niðurstöðum þjóðfundar í þessum efnum og stjórnlagaráðs, sem var reyndar ólöglega kosið, af hverju dregið er fram það sem snýr að kjördæmaskiptingunni en ekki spurt að því hvort þjóðin vilji styrkja fullveldið.

Ég rakti í máli mínu hvað býr að baki valinu á spurningunum. Það er ekkert annað en að ríkisstjórnin hefur verið að undirbyggja þann málflutning með ýmsum furðulegum rökum sem ekki eiga sér nokkra stoð, og maður hefur heyrt það hjá einstaka stjórnarliðum í dag, að mikilvægt sé að spyrja einungis þeirra spurninga sem hentar ríkisstjórninni að fá svör við. Þess vegna er ekki spurt um fullveldisafsalið, (ÓN: Um Evrópusambandið.) þess vegna er ekki spurt um Evrópusambandið, vegna þess að þeir sem tala mest um að aðrir hræðist þjóðina hræðast hana langmest sjálfir.