140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar sé mig knúinn til að beina því til forseta og vekja athygli á því að núna vantar klukkuna 20 mínútur í 10 og samkvæmt þeim upplýsingum sem forseti veitti þingheimi fyrir rúmum klukkutíma má reikna með því að atkvæðagreiðsla um það mál sem er á dagskrá hér taki um þrjár klukkustundir. Fari svo, virðulegi forseti, má ljóst vera að það mál sem hér er á dagskrá og varðar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá sé dottið niður og liggi dautt.

Ég vil nýta þetta tækifæri og óska Sjálfstæðisflokknum hjartanlega til hamingju með þann árangur sem hann hefur sýnt í dag að verða þess valdandi að þjóðin fái ekki að koma að mótun nýrrar stjórnarskrár með þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar.