140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð náttúrlega að minna hv. þingmann á að við erum væntanlega að tala um, þessi missirin, fjárhæðir sem við sjáum ekki nema örsjaldan, í allra besta árferði sem sjávarútvegurinn býr við og kannski tímabundið vegna þess að raungengi krónunnar er mjög lágt og saman fara góð aflabrögð og hátt verð á mörkuðum. Það væri auðvitað ágætt ef þetta væri alltaf allt plúsmegin, en þannig verður það væntanlega ekki. Við skulum ekki gleyma því að við sem samfélag berum líka byrðar af þessu hinum megin þar sem er hið lága raungengi, því að sjálfsögðu hefur það áhrif á kaupmátt almennings gagnvart innfluttri vöru o.s.frv.

Það má segja að allar aðstæður fyrir sjávarútveg í dag séu eins góðar og þær geta orðið með einni undantekningu, það er hátt olíuverð, af því ég tek skuldirnar ekki með. Þær eru eitthvað sem við eigum auðvitað ekki að nota sem sjálfstætt tilefni af þessu tagi þó við vitum auðvitað af tilvist þeirra. Mér finnst það ekki góð nálgun að tala um þetta sem 400 milljarða skuldir til viðbótar á sjávarútveginn. Þannig að þegar við horfum til þessa og jafnvel gagnrýni eða athugasemda frá Daða Má Kristóferssyni og fleirum, ber að hafa í huga að við erum að tala um fjárhæðir sem við reiknum alls ekki með að sjáist nema í allra, allra bestu árum, sjaldan og kannski með margra ára millibili. Viðfangsefnið er að átta sig á því og greina hvað sé hóflegt við aðstæður eins og þær sem nú eru að sjávarútvegurinn greiði. Hvað er eðlilegt? Hvað finnst okkur vera sanngjörn hlutdeild auðlindarentunnar til þjóðarinnar í svona árferði?

Mér finnst reyndar athyglisvert að færri hafa nefnt mikilvægi hins sem þetta frumvarp tekur mjög vel á, að sjávarútvegurinn greiði ekki þegar afkoman er slæm. Sú aðferð sem hér er skilgreind mætir því sjónarmiði mjög vel eins og sagan sýnir að í fimm ár af tíu hefðu uppsjávarveiðarnar ekkert sérstakt veiðigjald greitt og bolfiskurinn ekki einu sinni neitt árið 2004.

Mér finnst því hvort tveggja mikilvægt sem viðfangsefni að passa upp á að aðferðafræðin sé þannig að eðlilegri auðlindarentu sé skilað í góðum árum, en líka hitt að sjávarútveginum sé ekki íþyngt þegar hann býr við lakari skilyrði og má ekki við því. (Forseti hringir.)