140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

auðlindagjöld.

[15:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, Oddný G. Harðardóttir, kom inn á það í ræðu hér í þinginu að hún teldi eðlilegt að orkugeirinn greiddi sambærilega auðlindarentu og lagt er til að sjávarútvegurinn greiði í nýju kvótafrumvarpi. Hún ítrekaði þetta á ársfundi Landsvirkjunar fyrir helgi og sagði að það væri eðlilegt að gera sambærilegar kröfur til nýtingar náttúruauðlinda á landi, í lofti og sjó.

Landsvirkjun greiðir á þessu ári um 1,8 milljarða í arð til íslenska ríkisins. Ef við skoðum hvaða áhrif það hefði að leggja til dæmis það frumvarp um auðlindagjald í sjávarútvegi á Landsvirkjun, forsendurnar yrðu þá eitthvað aðeins breyttar, það er eðlilegt og við getum öll verið sammála um að gera ekki sömu kröfu um ávöxtun eigin fjár í orkugeiranum og er í sjávarútvegi. En ef við mundum gera t.d. ávöxtunarkröfu í orkugeiranum upp á 5,5% yrði þetta gjald um 8 milljarðar á Landsvirkjun.

Nú hefur ráðherra með bæði ríkiskassann og hlutabréf okkar í Landsvirkjun að gera. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist ekki eðlilegt að gera þá kröfu til Landsvirkjunar á þessum tímamótum að greitt sé sama auðlindagjald eða svipað auðlindagjald til þjóðarinnar og farið er núna fram á að sjávarútvegurinn greiði, sem yrði þá kannski 7,5–8 milljarðar á þessu ári.

Ég vil einnig fá viðbrögð hennar við því hvaða áhrif hún teldi þetta hafa á þá góðu stöðu sem kynnt var á ársfundinum hjá Landsvirkjun, þá góðu stöðu sem gerir Landsvirkjun kleift að greiða niður erlend lán og auka og bæta lánshæfismat sitt. (Forseti hringir.) Hvaða áhrif mundi þetta hafa til dæmis á lánshæfismatið og á þann rekstur og þá góðu stöðu sem Landsvirkjun kynnti fyrir okkur?