140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

hækkun kostnaðarhlutdeildar lífeyrisþega, öryrkja og barna vegna sjúkraþjálfunar.

628. mál
[17:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að fá umræðu um heildstæðar lausnir og við getum verið sammála um að það er markmið sem við stefnum að. En varðandi eina af grundvallarspurningunum sem ekki var svarað á sínum tíma og ekki hefur verið svarað fyllilega og þarf að taka afstöðu til þegar við ræðum læknakostnaðinn er: Ætlum við að taka upp komugjöld á sjúkrahúsum? Ætlum við að jafna kostnaðinn þannig að þeir sem koma á sjúkrahús fái alla þjónustu ókeypis, að allt verði greitt? Hv. þm. Pétur H. Blöndal nikkar og gefur til kynna að það sé óhjákvæmilegt til að ná þessum jöfnuði, ef ég skil hann rétt. Um það hefur verið mikill ágreiningur og menn eru ekki tilbúnir að taka það skref enn sem komið er.

Varðandi þá hækkun sem hér varð held ég að þær tölur sem ég las upp hafi sýnt að í rauninni hafi hækkunin verið mjög hófleg. Það varð 3% almenn hækkun á gjaldskránni með 131 kr. á hverja komu en verðlagshækkun í fjárlögunum var 5,32%.

Það er ekki nóg að taka meðaltal, það er hárrétt hjá hv. þingmanni og fyrirspyrjanda Guðlaugi Þór Þórðarsyni, það verður að horfa á útkomuna hjá hverjum einstaklingi. Í þessari gjaldskrá er einmitt reynt að taka mið af því, til dæmis varðandi þá sem þurfa að nýta þjónustuna oftar en 30 sinnum á ári, gjaldið fyrir þá einstaklinga hækkaði ekki um áramótin. Reynt er að skapa jafnvægi og verja þá sem koma oftar og nýta þjónustuna meira.

Við glímum við það í heilbrigðiskerfinu öllu að hér hefur verið einkarekstur í ákveðnum málaflokkum. Menn hafa verið á samningum og síðan dottið út úr samningum og á meðan þeir eru ekki í samningsstöðu er ákveðinn leki í kerfinu þar sem þeir geta hækkað gjaldskrá, sem er auðvitað afleitt og bitnar á notendum. Það er því að mörgu að hyggja hvað varðar þessa þætti og vonandi reynum við saman að finna sem allra bestar lausnir.