140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hann kom akkúrat inn á fyrri breytingar í Stjórnarráðinu í andsvari sínu hér áðan, sem ég tók reyndar undir og sagði þá og get sagt enn því að ég hef ekki skipt um skoðun. Ég held nefnilega, af því að nú sit ég í fjárlaganefnd og sé hvað kostnaðurinn er mikill, ég fór aðeins yfir það í ræðu minni áðan, að breytingarnar á Stjórnarráðinu, bara húsnæðiskostnaðurinn, verði tæpar 250 milljónir, bara við það að hringla svona með þetta. Þetta eru gríðarlega miklir peningar á niðurskurðartímum.

Hv. þingmaður kom inn á það í svari sínu hér áðan að það væri alltaf spurning hvort hægt væri að hafa aðstoðarráðherra. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að vera opnir fyrir því hvort heldur þeir kæmu inn í þessi stóru ráðuneyti, kannski við aukið álag eða eitthvað, að hafa hugsanlega aðstoðarráðherra til að sleppa við það að vera alltaf að færa ráðuneytin, minnka þau og breyta þeim, henda stofnunum á milli og byggja strúktúrinn upp þannig í Stjórnarráðinu að hægt væri að fá inn aðstoðarráðherra, jafnvel bara tímabundið þótt væri ekki nema hálft kjörtímabil eða eitt ár, eitthvað svoleiðis. Það er nokkuð sem við þurfum að þróa og ræða hvernig mundi gagnast. Aðstoðarráðherra gæti jafnvel verið einn aðili með hæstv. ráðherra sem bæri ábyrgð á málaflokknum og væri honum til aðstoðar og hefði tilskilin og afmörkuð verkefni í ráðuneytinu.

Mig langar aðeins að heyra betur skoðun hv. þingmanns á því hvort hann geti tekið undir það, sérstaklega í ljósi þess mikla kostnaðar við flutningana, að geta bara sett inn aðstoðarráðherra í einhvern ákveðinn tíma í stað þess að eyða alltaf fúlgum fjár í að breyta húsnæði.