140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að við hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson séum í meginatriðum sammála um þetta mál. Ég ætla ekki að spyrja hann út í atriði sem við erum sammála um.

Ég hjó hins vegar eftir því að hann tók jákvætt í þá hugmynd sem orðuð er í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu um hið svokallaða efnahagsráð. Ég hrökk nokkuð við þegar ég sá þessa hugmynd. Það er auðvitað ekki verið að leggja til að þetta ráð verði stofnað núna, til þess þarf væntanlega sérstakt þingmál, lagafrumvarp eða eitthvað þess háttar. Ég velti því fyrir mér hver staða slíks ráðs ætti að vera. Það er auðvitað falleg hugsun að setja saman nefnd vísra manna sem geta tjáð sig um efnahagsmál, en ég velti fyrir mér hvort svoleiðis ráð þurfi ekki með einhverjum hætti að styðjast við sjálfstæða rannsóknarstofnun eða hafa einhverja slíka möguleika til að leggja sjálfstætt mat á efnahagsáætlanir stjórnvalda. Jafnvel þó að um vísa menn og góða sé að ræða getur engu að síður verið erfitt fyrir þá, ef þeir eru í öðrum störfum, að vefengja skýrslur sem koma frá Hagstofu eða hinu mikla allsherjarráðuneyti fjármála- og efnahagsmála sem ætlunin er að stofna. Þannig að ég velti fyrir mér: Er þessi hugmynd um ráð vísra manna ekki hálfgert hjóm nema með fylgi einhvers konar, ég leyfi mér að segja, stofnun eða að minnsta kosti eitthvert afl til þess að láta framkvæma sjálfstæðar rannsóknir á þessu sviði?