140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hugmyndir áþekkar þeirri sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu hafi verið á sveimi og megi rekja allt aftur til þess þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Þá, í fyrsta lagi, fékk Hagstofan aukið hlutverk í þjóðhagsreikningagerð og Alþýðusamband Íslands fékk fjárframlög og fær enn til verkefna sem var ætlað að vera einhvers konar mótvægi við það sem tapaðist með Þjóðhagsstofnun. Síðan gerði Hagfræðistofnun að minnsta kosti í sjö ár eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður eina skýrslu á ári um efni að eigin vali. Þetta voru vandaðar skýrslur og mikið lagt í þær. Þær voru fjármagnaðar af forsætisráðuneytinu en gerðar þannig að forsætisráðuneytið hafði engin afskipti af gerð þeirra. Þessar skýrslur voru oft þannig að þær innihéldu hluti sem horfðu til bóta, bæði í hagstjórn og almennu efnahagsskipulagi.

Mér er ekki alveg kunnugt um hvort hugmyndin hafi verið sú að Hagstofan væri með einhvers konar hagráð, getum við sagt, en það held ég að færi reyndar illa saman við grunnstarfsemi Hagstofunnar sem er gerð þjóðhagsreikninga og tölfræðivinna. Ég veit aftur á móti að hugmyndir voru uppi (Forseti hringir.) um að Hagstofan mundi gera þjóðhagsspár sem hún hefur gert.