140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er óneitanlega sérkennilegt eins og nokkrir þingmenn hafa komið inn á við þessa umræðu að ríkisstjórnin skuli nú vera að leggja fram tillögu um grundvallarbreytingar á Stjórnarráðinu sem taka munu gildi þegar hálft ár er í kosningar. Fyrir liggur að það er ekki nokkur einasta samstaða um þær breytingar, raunar er mikil andstaða bæði í stjórnarandstöðu og innan stjórnarliðsins. Hver er þá tilgangurinn með þessu máli? Hver er tilgangurinn með því leggja slíkt ofurkapp á það? Ég hefði nú haldið að það væru nógu mörg stór mál sem ríkisstjórnin ætti enn óafgreidd þó að hún að færi ekki að leggja allt kapp á það að reyna að troða í gegn þessu umdeilda máli sem tæki ekki gildi fyrr en einungis hálft ár væri í kosningar og nánast alveg ljóst að sú ríkisstjórn sem tæki við að kosningum loknum mundi gera á þessu verulegar breytingar.

Er það þess virði að ráðast í svo kostnaðarsamar breytingar, þennan mikla slag sem hæstv. forsætisráðherra virðist ætla að leggja í hér í þinginu til að reyna að troða þessu í gegn, til að geta svo fylgt þessum nýju reglum í hálft ár? Vegna þess að það liggur fyrir að ekki er samstaða um þessar breytingar. Menn sjá á þeim ýmsa galla, það er ekki hvað síst eftir faglegar ábendingar. Eins og hv. þm. Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, benti á í ræðu sinni fyrr í dag gengur þetta í berhögg við það sem menn hafa verið að vinna að í starfshópi um framtíðarfyrirkomulag fjármálageirans á Íslandi. Þar er áherslan frekar á að mynda öfluga heild í einu ráðuneyti varðandi stjórn efnahagsmála og regluverk fjármálageirans. Þetta gengur því algjörlega í berhögg við þá stefnu sem er boðuð í þessu frumvarpi.

Raunar nefndi fyrrverandi ráðherra, hv. þingmaður, að þetta gengi gegn stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Eftir að hafa skoðað það fær maður ekki annað séð en það sé rétt hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að þetta gangi gegn stjórnarsáttmálanum þar sem sérstaklega er fjallað um að stjórn efnahagsmála og umsjón og eftirlit með regluverkinu verði á sömu hendi. Á þessu eru þó ýmsir fleiri gallar en varða ráðuneyti er varða efnahags- og fjármál. Enn sjáum við hér tilraunir til þess að sameina í eitt ráðuneyti ráðuneyti landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. En aldrei hafa fengist fullnægjandi rök fyrir því hvers vegna ætti að leggja í slíkt.

Hins vegar blasir það alls staðar við í nýlegri ályktun frá Evrópuþinginu að þessum breytingum er fagnað. Raunar sáu menn sérstaka ástæðu til þess þar á bæ að fagna brotthvarfi Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn. Þetta allt bendir til þess að þetta kappsmál hæstv. forsætisráðherra sem engin rökrétt ástæða virðist vera fyrir — því að eins og ég nefndi áðan tæki þetta ekki gildi fyrr en hálfu ári fyrir kosningar þar sem ljóst er að við tæki ný ríkisstjórn sem vildi hafa þetta öðruvísi. Þetta hlýtur að byggja á því að verið sé að uppfylla einhverjar kröfur sem Evrópusambandið hefur gert til Íslands hvað varðar aðlögun að regluverki Evrópusambandsins og því að gera Ísland eins og Evrópusambandið vill hafa það.

Hagræðingu er ekki spáð, ekki til að byrja með að minnsta kosti. Þvert á móti fylgir því auðvitað alltaf kostnaður þegar verið er að sameina ráðuneyti. Einhvern tímann þegar einn af fyrirrennurum þessa frumvarps var lagður fram var því haldið fram í greinargerð að það mundi líklega spara 300 milljónir á ári. Þegar farið var að skoða það kom í ljós að sá sparnaður átti ekki að verða til strax. Þvert á móti var gert ráð fyrir kostnaði við sameininguna, eðlilega, en að sparnaðurinn gæti hugsanlega orðið til einhvern tímann í framtíðinni við það að ráðuneyti gætu væntanlega sagt upp bílstjórum, minnkað við sig húsnæði og þar fram eftir götunum, þó að því miður virðist reynslan sýna að svona sameiningartilburðir leiði ekki aðeins til kostnaðarauka til að byrja með, heldur oft og tíðum lengi vel eftir sameiningu og leiði mjög oft til þess að hið nýja sameinaða apparat verði enn þá umsvifameira en þau sem voru sameinuð til þess að mynda eina heild.

Rætt hefur verið um samnýtingu starfsmanna. Það er þá meðvituð stefna þessarar ríkisstjórnar að hverfa frá því að koma sér upp sérhæfingu í það að samnýta menn í auknum mæli innan ráðuneytanna. Hvernig á til dæmis sérfræðingur í hafréttarmálum að nýtast ef upp kæmi álitamál varðandi stóriðju? Jú, sérfræðingurinn í hafréttarmálum getur verið fjölfróður og komið ef til vill með góðar ábendingar, en er tíma hans best varið með því að setja hann yfir í einhver verkefni sem hann er ekki sérfræðingur í? Það er mjög erfitt að sjá á þessum hugmyndum hvernig þessi samnýting á að verða hagkvæm, raunar bendir hún til þess eins og ég segi að horfið verði frá sérhæfingu sem þó hefur vantað stundum dálítið upp á að menn hafi verið að reyna að byggja upp innan núverandi ráðuneyta. Svoleiðis að ekki er þetta til þess fallið að afraksturinn verði endilega betri en hann er nú. Raunar benti hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á það í ræðu fyrr í dag að með þessu væri verið að veikja mjög þann bakhjarl sem ráðuneytin eru á margan hátt fyrir atvinnugreinarnar, fyrir sjávarútveginn, landbúnaðinn og iðnaðinn. Ég hef ekki séð stjórnarliða hrekja málflutning fyrrverandi ráðherra hvað þetta varðar.

Enda liggur það fyrir eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á að fulltrúar þessara greina hafa líklega í flestum tilvikum lagst gegn þessum sameiningaráformum ráðuneytanna í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það er því miður í samræmi við vinnubrögðin sem viðhöfð hafa verið í þessu máli, að ekki hefur verið haft samráð við þá sem starfa í þessum greinum til að læra af þeim hvernig ríkisvaldið geti sem mest og best stuðlað að atvinnuuppbyggingu í landinu og hvað gagnist þessum atvinnugreinum best. Nei, farið er án samráðs þvert gegn því sem þeir sem starfa í umræddum greinum telja æskilegast. Og að sjálfsögðu er farið þvert gegn því sem stjórnarandstaðan telur æskilegt í málinu og samráði við hana algerlega sleppt. Það er mjög sérkennileg nálgun þegar um er að ræða breytingar sem ólíkir flokkar og ólíkar ríkisstjórnir munu þurfa að starfa eftir um ókomin ár.

Þetta er reyndar því miður ekki einsdæmi hjá núverandi ríkisstjórn. Við sjáum það sama gerast varðandi rammaáætlun sem var hugsuð til þess að taka umhverfisvernd og virkjanamál út úr hinu pólitíska argaþrasi og setja í faglegt ferli þar sem menn gætu sameinast um að verja náttúruna en jafnframt að nýta auðlindir. Í stað þess að gera það, í stað þess að nota tækifærið til að koma á skýrri framtíðarsýn er varðar umhverfisvernd í landinu og atvinnusköpun sem ólíkar ríkisstjórnir og ólíkir flokkar gætu starfað eftir var málinu kippt aftur út og sett í pólitískan átakafarveg. Það sama hefur verið gert núna með Stjórnarráðið og það til þess að því er virðist að gera breytingar sem einungis muni gilda í hálft ár. Ég veit ekki hvort Evrópusambandið lætur sér það nægja að ríkisstjórnin hafi með þessum hætti sýnt vilja sinn í verki þó að hin kostnaðarsama breyting gildi einungis í hálft ár. En þetta er auðvitað í samræmi við margt annað í stjórnarháttum þessarar ríkisstjórnar og á engan hátt til fyrirmyndar við stjórn ríkis.