140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum, eins og ég benti á í andsvari mínu við hv. þingmann, að það gerist með þeim hætti að áætlanir voru upp á 160 milljónir, og það kemur fram og var unnið þannig að haft var samráð bara við forsætisráðuneytið, það var ekkert verið að tala við þingið. Þegar menn voru að endurskoða áætlunina var hún komin í 210 milljónir og endar núna í 247 milljónum. Það kemur væntanlega inn í lokafjárlög fyrir árið 2011 sem verða afgreidd eftir að þetta þing er farið heim, svo skrýtin sem þau vinnubrögð eru.

Ég velti því upp í ræðu minni áðan að þessir frasar hjá hæstv. ríkisstjórn eru alveg hreint með ólíkindum. Manni finnst þjóðarskútan vera á reki með allt í skrúfunni eins og sagt er, það er engin stefna, það er engin framtíðarsýn, ákvarðanir eru teknar svona frá degi til dags og það virðist vera að ríkissjóður og landið sé bara rekið frá degi til dags, en aðalmarkmiðið sé hvernig hægt sé að taka ákvörðun um að ríkisstjórnin lifi, ekki um hag íbúanna eða fólksins í landinu.

Ég velti því upp í upphafi ræðu minnar hvers vegna þetta gerist. Nú sáum við það sem gerðist í svokölluðum ráðherrakapli um síðustu áramót, sem var algjör farsi hjá hæstv. ríkisstjórn. Búið var að sitja um hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, reynt var að finna einhverja ástæðu til að henda honum út, hvort sem það var til að þóknast Evrópusambandinu eða ekki, það veit ég ekki. En ég hef velt því fyrir mér hvort það gæti verið skýringin á þessu rugli öllu saman, að það hafi verið mat formanns Vinstri grænna, eftir að hann sýndi mjög ódrengilega framkomu og hjólaði í sinn samráðherra og varði hann ekki, að taka hefði þurft einn samfylkingarráðherra með til viðbótar. Og það sé kannski pattstaðan sem menn lentu í núna út frá þessum breytingum á Stjórnarráðinu vegna þess að það virtist ekki vera nein áætlun (Forseti hringir.) eins og blasti við manni þegar var verið að vinna verkin á sínum tíma.