140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð tillaga sem ég hef ekki hugsað út í sjálfur þó að ég sé þeirrar skoðunar að það eigi að ráða inn í Stjórnarráðið. Ég held að það sé mjög skynsamlegt. Þetta er svipað og þegar verið var að sameina sveitarfélögin, einhverjir þéttbýliskjarnar voru sameinaðir og eftir stóð sameinað sveitarfélag með þrjá til fjóra grunnskóla. Þá þurftu sveitarstjórnarmennirnir að bregðast við og ráða viðkomandi kennara, því að þeir voru ráðnir við viðkomandi grunnskóla, til grunnskólanna í sameinuðu sveitarfélagi þannig að hægt væri að færa kennarana til en ekki þannig að hægt væri að hagræða í skólastarfinu og gera það faglegra og betra. Þess vegna er ég þessarar skoðunar.

Ég geri ekki athugasemdir við það að eftir ríkisstjórnarskipti geri menn einhverjar breytingar á Stjórnarráðinu. Mér finnst mjög mikilvægt að þær séu gerðar í upphafi kjörtímabils en ekki á síðustu metrunum, hvað þá að vinna þær eins og hér hefur verið gert. Það er ekki til eftirbreytni. Ég hef líka séð kostnaðinn við að breyta húsnæðinu. Það er gríðarlega dýrt að breyta húsnæði, það er verið að færa til ráðuneyti, henda þeim til og það er ekki skynsamlegt að eyða peningunum í þetta. Við erum vissulega með mjög gott starfsfólk í ráðuneytunum upp til hópa, mjög fínt starfsfólk, vandað og gott starfsfólk sem vinnur af samviskusemi að sínum verkefnum. Auðvitað er hægt að ná fram hagræðingu í sameiningunni í Stjórnarráðinu, ég er alveg sannfærður um það. Ugglaust er búið að ná fram hagræðingu og það mun gerast en tekur einhvern tíma. Þess vegna hef ég sagt að ég telji mjög mikilvægt að menn ræði efnislega um kosti og galla þess að hafa til að mynda það kerfi sem hefur ekki verið, (Forseti hringir.) t.d. aðstoðarráðherra.