140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég kem upp í andsvar eru fyrst og fremst orð sem féllu í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar í sambandi við hversu oft frumvörp um breytingar á Stjórnarráðinu hefðu komið fram á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Ég gaf honum bendingu um að ég héldi að þetta væri sjöunda þingmálið sem hefði breytingar á Stjórnarráðinu í för með sér.

Ég fór aðeins yfir það í huganum og með snöggri aðstoð tölvukerfis Alþingis sýnist mér að áður hafi fimm lagafrumvörp verið borin fram og afgreidd hér á þingi sem fela í sér breytingar á stjórnarráðslögunum, þá er ég að tala um efnislegar breytingar. Því til viðbótar eru fleiri breytingar, þá yfirleitt breytingar á öðrum lögum en stjórnarráðslögunum en tengjast stjórnarráðsbreytingum, (Forseti hringir.) þannig að það er nær að segja að þetta sé sjötta málið sem felur í sér efnislegar breytingar frekar en sjöunda (Forseti hringir.) eins og ég gaf til kynna áðan.