140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Mér finnst þetta mjög áhugaverð spurning sem hann varpar fram. Ég get ekki svarað þessu og það eina sem ég get sagt við hv. þingmann varðandi spurningu hans er það að þær fullyrðingar í greinargerð sem hann las hér upp eru algjörlega órökstuddar, þær eru ekki studdar neinum gögnum, þær eru ekki studdar með tilvísun til neinna skýrra niðurstaðna, athugana, greininga eða þess háttar. Látið er í veðri vaka að slíkar upplýsingar séu til en ég segi bara: Þetta eru bara fullyrðingar sem fram koma í greinargerðinni. Ef maður á að meta þær fullyrðingar verður maður að sjá einhver gögn á bak við þetta og það er meðal þess sem við hljótum að kalla eftir á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þangað til slíkar upplýsingar hafa verið lagðar fram standa þetta bara nánast, getum við sagt, sem pólitísk slagorð. Þetta er ekki rökstutt með neinum hætti.

Ef ég leyfi mér að tjá mig um þetta persónulega þá hefur mér ekki sýnst markmið sameiningarinnar hafa náðst. Mér sýnist að markmið um betri þjónustu, betri stefnumörkun og annað þess háttar hafi ekki náð fram að ganga. Mín tilfinning er sú að allt hafi verið í megnasta vandræðagangi í þessum ráðuneytum. Ég held að þær efasemdir sem ég og fleiri hv. þingmenn höfðum þegar farið var út í þessar breytingar á sínum tíma hafi reynst á rökum reistar. Ég held að mörg vitlaus skref hafi verið stigin í breytingum á Stjórnarráðinu á kjörtímabilinu og ég óttast að með þessari tillögu verði þau fleiri.