140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja hv. þingmanni að vinnubrögð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í þessum efnum voru engu skárri. Þetta virðist vera einhver árátta — ég veit ekki hverjum er um að kenna. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sem grípur hér fram í kann að leggja saman, draga frá og deila niður. [Hlátur í þingsal.]

Sjálfstæðisflokkurinn lagði einmitt fram frumvarp um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á sínum tíma sem var mjög illa undirbúið og nánast ekkert samráð um. Ég minnist þess að þingmenn í mínum flokki bentu á þau herfilegu vinnubrögð sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð þá fyrir. Það hefði átt að vera nægileg lexía fyrir næstu ríkisstjórn að læra að þannig á ekki að vinna, enda benti ég margoft á það.

Það er gott að hv. þm. Ólöf Nordal hefur lært af reynslunni. Vonandi kemur hún til með að styðja bætt og betri vinnubrögð í þessum málum og öðrum frá því sem var þegar hennar flokkur var í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Guð láti gott á vita.