140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram en tel ástæðu til að bregðast við nokkrum atriðum sem sum hver byggja á misskilningi og órökstuddum fullyrðingum sem ástæða er til að fara yfir.

Í fyrsta lagi felur þessi þingsályktunartillaga það eitt í sér að Alþingi styðji fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er í raun í andstöðu við stjórnarskrána sem segir að forseti ákveði tölu ráðherra og skipti störfum með þeim. Staðreyndin er sú að það fyrirkomulag er í flestum Evrópulöndum utan Finnlands að þingið hefur ekki afskipti af verklagi innan Stjórnarráðsins eða tilfærslu á breytingum á verkefnum eða ráðuneytum eins og fram kom í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Hún var þeirrar skoðunar að framkvæmdarvaldið ætti að hafa það vald án afskipta þingsins að ráða hverju sinni hvernig verkefnum eða ráðuneytum væri komið fyrir í Stjórnarráðinu.

Þingsályktunartillaga þessi felur ekki í sér neinar breytingar á verkefnum sem framkvæmdarvaldið sinnir, heldur er um að ræða breytingar á ráðuneytum og færslu milli ráðuneyta. Allar efnisbreytingar sem gerðar yrðu á verkefnum í ráðuneytum eftir að þessi tillaga er samþykkt yrðu lagðar fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps. Dæmi eru breytingar sem tengjast Hafrannsóknastofnun, stofnun auðlindaráðs, breytingar sem tengjast nýju hlutverki eða verkefnum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka og fagráð svo nokkur dæmi séu tekin af þeim sem hér hafa verið nefnd. Það er grundvallaratriði sem nauðsynlegt er að liggi til grundvallar rökrænni umræðu og meðferð þessa máls á þingi.

Í tilefni af orðum eins eða fleiri þingmanna um að búið sé að veikja forsætisráðuneytið með því að taka efnahagsmálin þaðan og að það sé einsdæmi í löndum sem við berum okkur saman við vil ég benda á að hvergi á Norðurlöndunum er hagstjórn í forsætisráðuneytum. Þetta er stefnumörkun á hlutverki forsætisráðuneytisins sem við lögðum upp með og miðaði að því að skynsamlegast væri vegna samhæfingar og skilvirkni í stjórnsýslunni að forsætisráðuneytið hefði með höndum verkstjórnarvald, m.a. gegnum ráðherranefndir, og fylgdi eftir málum sem gengju fram og væru samhæfð, eins og efnahagsstefnunni og stefnunni í ríkisfjármálum. Í samræmi við þetta hefur markvisst verið ýtt út úr ráðuneytum ýmsum málum sem eiga að vera annars staðar að okkar dómi, t.d. menningartengdum verkefnum í Þjóðmenningarhúsi og Gljúfrasteini. Ég gæti nefnt fleiri dæmi.

Það kemur fram í þessari greinargerð að Ríkisendurskoðun hefur farið yfir fyrri samninga. Eins og fram kemur á bls. 2 hefur hún gefið þeim góðar einkunnir, og undirbúningi nú er hagað með svipuðum hætti og gert var í þeim sameiningum.

Kallað hefur verið eftir greiningum á þessum breytingum. Þær liggja fyrir og verða auðvitað til umfjöllunar í nefndinni sem fær þetta til skoðunar, bæði að því er varðar breytingu á efnahagsráðuneytinu og atvinnuvega- og umhverfisráðuneytunum. Ég vil fyrst nefna varðandi breytinguna á þeim að þar varð niðurstaða greiningarinnar sú að um væri að ræða leiðir til að þessar einingar yrðu öflugri stjórnsýslueiningar sem annars vegar sinntu atvinnumálum og hins vegar auðlindamálum. Síðan mætti ná fram skarpari verkefnaskilum mill ráðuneyta og aukinni samlegð, t.d. í þjónustu stjórnvalda við atvinnulífið. Það var talið æskilegt að sameina hlutverk stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu þvert á atvinnugreinar þannig að skipan ráðuneyta væri óháð atvinnugreinum og að sama ráðuneyti sinnti þannig tilteknum hlutverkum gagnvart öllum atvinnugreinum.

Í þessum greiningum kemur fram að núverandi samþætting þvert á atvinnugreinar gæti verið meiri í 14 af 18 meginhlutverkum sjávarútvegsráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins.

Loks leiddi greiningin í ljós að ávinningur af nýrri ráðuneytaskipan væri metinn jákvæður í tengslum við 16 af þeim 18 þáttum sem greindir voru. Ég held að það sé mikilvægt að þetta komi fram.

Hér hefur ítrekað verið spurt um stofnanabreytingar í tengslum við þessar breytingar. Ég lét þess getið í framsögu minni þannig að það ætti ekki að fara fram hjá neinum að gert er ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun muni stjórnskipulega heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og auk þeirra verkefna sem nú heyra undir umhverfisráðuneytið er umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til framtíðar ætlað að skilgreina þau viðmið sem leggja þarf til grundvallar sjálfbærri nýtingu auðlinda og veita ráðgjöf um hagnýtingu þeirra. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun þannig eiga náið samstarf við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti við að framfylgja stefnu um sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Varðandi efnahagsráðuneytið liggur fyrir greining þar að lútandi sem unnin var af Gylfa Magnússyni, dósent við Háskóla Íslands, Sigurði H. Helgasyni, ráðgjafa hjá Stjórnháttum, og Sigurði Snævarr, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra. Friðrik Már Baldvinsson fór yfir þessa greiningu þar sem kallað var eftir því að fá fram kosti og galla þess að efnahags- og viðskiptaráðuneytið starfaði áfram, um möguleika á að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið, kosti og galla þess að færa núverandi viðfangsefni efnahags- og viðskiptaráðuneytis til annarra ráðuneyta og mögulega staðsetningu á viðfangsefnum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í öðrum ráðuneytum. Niðurstaða þeirra birtist svo í því að það var ákveðið að breyta skipan mála að því er varðar efnahagsráðuneytið og skipta verkefnum þess milli fjármálaráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins þannig að efnahagsmál og samhæfing hagstjórnar, peningamál og gjaldeyrismál flyttust til fjármálaráðuneytisins. Það er svipað fyrirkomulag og er í ýmsum nágrannalöndum okkar en umgjörð atvinnulífsins yrði að öðru leyti í atvinnuvegaráðuneytinu.

Hér er engu verið að breyta varðandi samhæfða hagstjórn. Þvert á móti er hér unnið að skilvirkari framkvæmd þessara mála með þeim leiðum sem við leggjum til í þessari þingsályktunartillögu.

Varðandi sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands er til dæmis byggt á greiningu frá Jóni Sigurðssyni sem vann meðal annars þá skýrslu um fjármálamarkaðinn sem hér var lögð fram. Ef ég veit rétt er ekki lögð til sameining á Fjármálaeftirlitinu við Seðlabankann, heldur er lagt til að í þessum mikilvægu stofnunum, sem eru auðvitað sjálfstæðar, verði viðfangsefnin meðal annars unnin með samskiptaformi sem þessar tvær stofnanir hafa gert með sér.

Ég sé að tími minn er að verða búinn þannig að ég hef ekki tíma til að fara nánar yfir þetta hér. Ég tel að með þeim leiðum sem við erum að fara hér sé efnahagsstjórnin í landinu styrkt. Af því að hér hefur verið rætt um að fjármálastofnanir ættu frekar heima í fjármálaráðuneytinu tel ég mjög viðkvæmt að fjármálamarkaðurinn heyri undir sama ráðuneyti og fer með eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég tel líka að það eigi ekki heima í fjármálaráðuneytinu vegna þess að það sjálft er aðili að fjármálamarkaði, stór viðskiptavinur og samkeppnisaðili við fjármálastofnanir. Ég vil benda á að Viðskiptaráð, sem við ræddum meðal annars við út af þessum málum, taldi eins og við að þetta ætti heima í atvinnuvegaráðuneytinu eins og við breytum hér, og fjármálamarkaðurinn einnig. Hið sama gildir um Samtök fjármálafyrirtækja sem fjölluðu um þetta mál, þau gerðu ekki (Forseti hringir.) athugasemdir við það fyrirkomulag að fjármálamarkaðurinn heyrði undir (Forseti hringir.) atvinnuvegaráðuneytið.