140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

kjarasamningar smábátasjómanna.

[10:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé einmitt ágætt að hv. þingmaður veki athygli á því að sjávarútvegsmálin eru núna í höndum Alþingis og að atvinnuveganefnd er að fjalla um málið. Þess vegna er ástæða til að vekja athygli á því að ein af mikilvægum forsendum í því frumvarpi er að það sé skýrt í hverju nýtingarleyfið felst. Ég veit að það hefur verið í umræðunni og skoðun hvort skilyrði varðandi kjarasamningana eigi að vera inni í sjálfu leyfinu eða hvort það eigi að vera almennt skilyrði um að menn hlíti lögum, fari eftir reglum o.s.frv. eins og segir sig bara sjálft. Þá þarf auðvitað að vera tryggt að þetta ákvæði sé skýrt í almennum lögum, að það þurfi að vera kjarasamningar og menn fylgi leikreglum vinnumarkaðarins jafnt á smábátum sem á öðrum skipum. Ég vona að þetta mál fái efnislega málsmeðferð í þinginu og að farsæl lausn finnist.