140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég vil byrja á því í þessari umræðu að lýsa fögnuði mínum yfir því að þessi tillaga sé komin fram og fái umræðu í þingsal, að við séum loksins komin með málið inn í þingið.

Mig langar að taka fram strax í upphafi máls míns að ég sat í verkefnisstjórn um rammaáætlun. Ég var skipuð í hana árið 2007 af þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde og sat í henni allt til enda og þá í umboði forsætisráðherra.

Það er nauðsynlegt í þessu máli að fara aðeins yfir forsöguna og hvers vegna þessi rammaáætlun var gerð. Allir þekkja að hér hafa verið miklar deilur og háværar raddir og gífuryrði í raun á báða bóga varðandi vernd og nýtingu náttúruauðlinda okkar. Vegna þessa þótti stjórnvöldum þess tíma ástæða til að reyna að ná einhvers konar sátt í þeim málaflokki og reyna að horfa heildstætt til allra þeirra möguleika til orkunýtingar sem við höfum hér á landi í vatni og jarðhita. Þess vegna fór það ferli af stað varðandi 2. áfanga rammaáætlunar.

Niðurstaðan átti að byggja á vísindalegum gögnum þar sem ólík sjónarmið væru vegin með gagnsærri aðferðafræði. Það er rétt að taka fram að ferlið hefur tekið mikinn tíma og eins og fram hefur komið hefur rúmur áratugur farið í það verkefni, fyrst í rammaáætlun í verkefnisstjórn í 1. áfanga og svo núna í 2. áfanga sem skilað var fyrir þó nokkru. Við þá vinnu var leitað til allra helstu sérfræðinga á þessu sviði varðandi upplýsingar og gögn til þess að hægt væri að taka faglegar ákvarðanir um röðun þeirra virkjunarkosta sem mögulegir eru hér á landi. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa lýst því yfir að þeir fagni því að málið sé í þessu ferli. Þeir segja að þörf sé á því að reyna að ná þessu mikilvæga máli upp frá hinu pólitíska dægurþrasi og taka ákvarðanir á yfirvegaðan hátt með sýn yfir heildina á grundvelli faglegrar vinnu.

Þá komum við að því þingmáli sem hér er lagt fram, sem er afurðin af allri þessari vinnu. Þess ber fyrst að geta að þar er aðeins vikið frá niðurstöðunum og þeirri röðun sem verkefnisstjórnin lagði til. Þá erum við strax komin í spurningar varðandi hvaða rökstuðningi er beitt fyrir því að fara þá leið sem valin er og þarf að skoða það ítarlega. Ef alþingismenn og ríkisstjórn ætla sér að víkja frá þeirri röðun og niðurstöðum sem verkefnisstjórnin hefur komist að á grundvelli þeirrar vinnu sem ég fór yfir hlýtur það að kalla á mjög ítarlegan og þungan rökstuðning vegna þessarar forsögu. Í upphafi ætluðu menn sér að halda málinu frá pólitískum dægurhagsmunum og fara með það í faglegra ferli.

Þegar niðurstaðan liggur svo fyrir verða menn að sýna þann þroska að þeir geti, hvort sem þeir vilja frekari nýtingu eða frekari vernd, reynt að horfa á heildarmyndina, líta til sjónarmiða hver annars og fylgja þeirri röðun sem verkefnisstjórnin lagði til. Það er því að mínu mati mjög hættulegt af ríkjandi stjórnvöldum að ætla að færa til niðurstöðurnar. Það verður til þess að öllu því ferli og þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum rúmum áratug verður kastað fyrir róða. Það er nokkuð sem ég get alls ekki sætt mig við að gerist, sérstaklega í ljósi þess hversu margir hafa lýst því yfir að þetta sé ferli sem þeir styðja.

Nú reynir á, herra forseti, að stjórnmálamenn hafi kjark til þess að horfa aðeins út fyrir dægurþrasið, horfa á heildarmyndina, halda sig við það ferli sem lagt var af stað í og hefur verið í gangi á tímum ríkisstjórna flestallra flokka sem sæti eiga á Alþingi í dag. Þegar menn hafa fært til flokka, eins og til dæmis virkjunarkostina í neðri Þjórsá þar sem niðurstaðan varð sú, bæði í rammaáætlun í 1. og 2. áfanga, að það væru kostir sem vænlegt væri að nýta og ef menn ætla að fara að krukka í þær niðurstöður sem byggja á faglegri vinnu og mikilli upplýsingaöflun verða þeir að geta rökstutt það á mjög vel. Það hefur því miður ekki verið gert í þessu máli.

Þegar sú skoðanakönnun var gerð var ekki búið að skilgreina biðflokkinn á þann hátt sem síðar var gert með lögum frá Alþingi. Þegar hún fór fram gerði ég mér ekki grein fyrir því, sem meðlimur í verkefnisstjórninni, að biðflokkurinn yrði svona þröngur og hefði væntanlega sett færri kosti inn í biðflokkinn. Núna á hann bara að samanstanda af kostum sem ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar um. Það er því mjög mikilvægt að allir sem skoða þetta og reyna að draga ályktanir af skoðanakönnuninni átti sig á þeim þætti hennar, þessum mikilvægu forsendum fyrir annars ágætri könnun, að hún segir í rauninni ekki mjög margt um söguna.

Ráðherrar sem talað hafa fyrir þingsályktunartillögunni hafa vísað til þess að verið sé að breyta út frá röðuninni vegna umsagnarferlis sem farið hafi af stað vegna umsagna sem borist hafi við drög að þingsályktunartillögunni. Gott og vel, það er kynnt þannig. En það má ekki líta fram hjá því að í vinnu verkefnisstjórnar í 2. áfanga var haft gríðarlega mikið samráð við almenning og við hagsmunaaðila og í rauninni var öllum Íslendingum og öllum sem höfðu áhuga á því fært að taka þátt og hafa áhrif á vinnuna með því að senda inn athugasemdir á fyrri stigum málsins. Menn geta lesið um það í niðurstöðum verkefnisstjórnar sem hægt er að nálgast inni á heimasíðunni rammaáætlun.is hvernig umsagnarferlið fór fram, hvaða athugasemdir voru gerðar og hver viðbrögð verkefnisstjórnarinnar voru. Það samráð sem ég vísa hér til átti sér stað eftir að faghóparnir fjórir sem um getur hér í þingsályktunartillögunni voru búnir að skila niðurstöðum sínum. Það er því alveg ljóst, herra forseti, að þær athugasemdir sem komið hafa fram komu jafnframt fram á fyrri stigum málsins (Forseti hringir.) og það var mjög auðvelt fyrir alla að koma athugasemdum á framfæri.

Herra forseti. Ég gæti talað miklu lengur um þetta stóra og mikilvæga mál en hef því miður ekki lengri tíma en óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.