140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Verkefnisstjórn hafði gríðarlega mikið magn af upplýsingum. Um suma kosti var lítið efni til og aðrir kostir eru mjög vel rannsakaðir. Þeir kostir sem eru mjög langt komnir og nálgast það að vera hrint í framkvæmd standa að sjálfsögðu sterkast að vígi þar sem miklar upplýsingar liggja fyrir um þá, til dæmis kostirnir í neðri Þjórsá.

Í vinnu verkefnisstjórnar lágu fyrir upplýsingar frá helstu stofnunum okkar, þar á meðal Veiðimálastofnun um atriði sem snúa að henni. Ég treysti sérfræðingum okkar og þeim gögnum sem verkefnisstjórnin vann með, en auðvitað er alltaf hægt að rannsaka hlutina betur, eins og ég gerði grein fyrir áðan, menn þurfa líka að horfa á það.

Ef við ætlum að vísa þessum kostum í Þjórsá frá, eins og verið er að gera með þessari þingsályktunartillögu, en þeir eru að mínu mati og flestra þeirra sem komu að þessum málum einna mest rannsakaðir af öllum þeim kostum sem við höfum til skoðunar, þurfa að vera fyrir því veigamikil rök og í þessu máli er það einfaldlega ekki svo.

Einn af faghópunum í verkefnisstjórninni hafði meðal annars það verkefni að meta hlunnindi. Það var faghópur nr. 2 og þar voru meðal annars veiðihlunnindi tekin til skoðunar.